Kjörís hefur beðist afsökunar á því að íspinnar hafa á undanförnum vikum verið framleiddir með tréspýtum en ekki plastspýtum líkt og auglýst er framan á ískössum. Óánægðir viðskiptavinir létu í sér heyra á samfélagsmiðlum.
Plastpinnarnir eru gerðir til þess að safna til þess að hægt sé að smíða ýmiss konar hluti úr þeim. Á Youtube-síðu Kjöríss má t.a.m. finna leiðbeiningar um hvernig hægt er að búa til nokkur verk, s.s. Eiffel-turn, þyrlu og sleða.
Viðskiptavinir höfðu samband við Kjörís og sagði t.d. einn þeirra á Facebook að ekkert gengi að safna spýtunum fyrir drenginn sinn þar sem allir íspinnarnir hefðu verið með tréspýtum í fjórum kössum í röð.
Samkvæmt Kjörís lenti aðilinn sem selur fyrirtækinu spýturnar í afhendingarvandræðum og þar með fékk fyrirtækið enga plastpinna. „En nú erum við búin að fá glænýja sendingu til landsins og von bráðar verða litríku spýturnar komnar í alla pakka aftur og við getum haldið áfram að spreyta okkur á spýtunum,“ segir Kjörís.
Þá hefur drengnum sem var að safna plastspýtunum verið lofað sendingu af plastspýtum í pósti.
<iframe allowfullscreen="" frameborder="0" height="315" src="https://www.youtube.com/embed/uJuZl7x-36M" width="560"></iframe><div id="embedded-remove"> </div>