Allir nefndarmenn í peningastefnunefnd Seðlabanka Íslands vildu hækka stýrivexti bankans um að minnsta kosti 0,5 prósentur á seinasta fundi nefndarinnar. Einn nefndarmaður greiddi þó atkvæði gegn tillögu Más Guðmundssonar seðlabankastjóra og vildi hækka vexti um 1 prósentu. Hann taldi sig engu að síður geta fallist á tillögu Más.
Samþykkt var að hækka vextina um 0,5 prósentur, eins og kunnugt er, sem þýðir að vextir á sjö daga bundnum innlánum eru 5%, innlánsvextir (vextir á viðskiptareikningum) 4,75%, vextir af lánum gegn veði til sjö daga 5,75% og daglánavextir 6,75%.
Þetta kemur fram í fundargerð nefndarinnar sem birt var á vef Seðlabankans í dag.
Þar segir að nefndarmenn hafi verið sammála um að einsýnt virtist að hækka þyrfti vexti umtalsvert í ágúst og frekar á komandi misserum ætti að tryggja stöðugt verðlag til lengri tíma litið og senda um það skýr skilaboð með yfirlýsingunni nú.
Helstu rök sem fram komu á fundinum fyrir að hækka vexti um 0,5 prósentur að sinni voru þau að verðbólga væri enn lítil og ekki væri ljóst í hve ríkum mæli launahækkunum yrði velt út í verðlag eða mætt með hagræðingu í fyrirtækjum. Einnig væri óvíst hve mikið launaskrið yrði í framhaldi af kjarasamningunum. Á næsta fundi nefndarinnar lægi fyrir mæling á fyrstu áhrifum kjarasamninga á verðbólgu ásamt nýrri spá bankans.
Einnig var bent á að með því að senda skýr skilaboð um væntanlegar vaxtahækkanir yrði markaðurinn jafnframt búinn undir þær. Áhrifa boðaðra vaxtabreytinga myndi að einhverju leyti gæta strax eins og raunin varð með síðustu yfirlýsingu nefndarinnar þegar áhrif boðaðra vaxtahækkana komu strax fram á skuldabréfamarkaði.
Á móti var bent á þá hættu að peningastefnan væri að bregðast of seint og of hægt við. Krafturinn í þjóðarbúskapnum hefði þegar á síðasta fundi nefndarinnar kallað á hert taumhald óháð niðurstöðum kjarasamninga og hefði sú þörf aukist enn frekar þar sem taumhaldið hefði slaknað á milli funda vegna hækkunar verðbólguvæntinga.
Nú bættist við að launahækkanir í kjarasamningunum væru meiri en útlit var fyrir á síðasta fundi.