Gunnari Einarssyni, bæjarstjóra Garðabæjar, hefur verið boðið að vera viðstaddur undirritun kaupsamnings bandarísku verslunarkeðjunnar Costco um 12 þúsund fermetra húsnæði í Kauptúni 3 í Garðabæ. Undirritunin á að fara fram þann 17. júlí næstkomandi.
Fasteignin er í eigu félagsins Sýslu ehf., sem er í eigu bræðranna Sigurðar Gísla og Jóns Pálmasona.
Stefnt er að því að verslunin verði um 12 þúsund fermetrar að stærð og í þeim hluta Kauptúnsins sem nær frá versluninni Tekk og að Bónus.
Samkvæmt fasteignaskrá er Kauptún 3 alls um 19.000 fermetrar að stærð og metið á um 2,3 milljarða króna. Ef miðað er við fasteignamatið nemur fasteignamat 12.000 fermetra um 1,5 milljörðum króna.
Gunnar hefur áður sagt að verslun Costco gæti mögulega opnað vorið 2016. „Það á eftir að breyta húsnæðinu og ég geri ráð fyrir að það taki um það bil eitt ár,“ sagði Gunnar í samtali við mbl.
Gunnar segir að Costco eigi eftir að senda inn tillögur varðandi skipulagsmál en segist eiga von á þeim á næstunni.
Hann hefur áður sagt að teikningar af bensínstöðinni séu í vinnslu hjá arkitektum en þar á að verða hægt að fá bensín, dísel og hugsanlega metangas. Rafmagn verður að líkum hægt að fá upp við verslunina. Gert er ráð fyrir bensínstöðinni á milli hringtorgsins er liggur að Kauptúni og Reykjanesbrautar.
Costco er nokkurs konar blanda af búð og heildsölu og þurfa viðskiptavinir að vera í viðskiptaklúbb Costco til þess að fá að versla en aðild að honum kostar um sex til tíu þúsund krónur á ári í Bandaríkjunum.
Félagið rekur í dag um 670 vöruhús í Bandaríkjunum, Kanada, Mexíkó, Bretlandi, Spáni, Kóreu, Japan, Taívan og Ástralíu og er einnig einn stærsti söluaðili áfengis í heiminum, bæði í smásölu og heildsölu.
Verslun Costco sem opnar á íslandi er á vegum breska Costco, sem er dótturfélag Costco Wholesale Corporation og nefnist Costco Wholesale United Kingdom Ltd.