Vilja hluta sjúkrahótels á almennan leigumarkað

Sjúkrahótelið er fyrsta nýbyggingin af fjórum í nýjum Landspítala og …
Sjúkrahótelið er fyrsta nýbyggingin af fjórum í nýjum Landspítala og stefnt er að því að henni verði lokið á vormánuðum árið 2017. Teikning af sjúkrahótelinu

Áður en bygging sjúklingahótels á Landspítalalóð verður boðin út þurfa að liggja fyllri upplýsingar um hvaða þjónustu eigi að veita á hótelinu, hvernig háttað verði greiðslufyrirkomulagi sjúklinga og hverjum sé ætlað að reka hótelið.

Þetta segir í sameiginlegri fréttatilkynningu frá Samtökum atvinnulífsins og Samtökum verslunar og þjónustu.

Þá eigi að kanna nánar hagkvæmni þess að leysa sömu þörf með því að nýta betur núverandi byggingar Landspítalans og samning við rekstraraðila núverandi sjúkrahótels.

Rannsóknarstofnun atvinnulífsins á Bifröst hefur unnið skýrslu fyrir Samtök atvinnulífsins og SVÞ - Samtök verslunar og þjónustu þar sem athygli er beint að fyrirhugaðri byggingu sjúklingahótels á lóð Landspítalans.

Kostnaður mun hækka mikið

Í tilkynningunni er bent á að forsvarsmenn Landspítalans telji að unnt verði að leysa fráflæðisvanda spítalans með því að útskrifa af legudeildum sjúklinga sem eru að jafna sig eftir aðgerð og þurfa að vera í nálægð við spítalann til að sækja þar dag- og göngudeildarþjónustu.

Skýrsluhöfundar benda á að leigu- og rekstrarkostnaður á hvert rými í nýju hóteli verði umtalsvert hærri en núverandi rekstrarkostnaður sjúkrahótels við Ármúla þar sem fyrirhuguð hjúkrunarþjónusta verður mun meiri en á hefðbundnu sjúkrahóteli.

Skýrsluhöfundar telja að áður en lengra er haldið verði kannað nánar hvort tryggja megi svipuð gæði og afköst með lægri kostnaði en áætlanir um byggingu nýs sjúklingahótels gera ráð fyrir.

Skýrsluhöfundar telja að skilgreining á þjónustu sem fyrirhugað er að veita verði að vera mun fyllri en nú er, áður en gengið verður frá lokahönnun og farið í útboð á byggingunni.

Útvista rekstrinum

Bent er á að það liggi ekki fyrir hvort Landspítalinn eigi að reka hótelið eða hvort bjóða eigi þjónustu þess út að hluta til eða alfarið. Eðlilegt er kanna hagkvæmni þess að sami aðili komi að byggingu og rekstri hótelsins í samstarfi við faghópa á sviði hótelrekstrar og hjúkrunar.

„Eigi Landspítalinn að reka hótelið, þá verður sá rekstur að vera aðskilinn öðrum rekstri spítalans. Allur kostnaður, þ.m.t. húsnæðis-, leigu- og fjármagnskostnaður verður að vera sýnilegur og hluti af rekstrarkostnaði.“

„Það er skoðun skýrsluhöfunda að verði ráðist í að byggja nýtt sjúklingahótel á Landspítalalóð þá eigi að útvista sem stærstum hluta af rekstri. Slíkt gefur meiri möguleika á að fullnýta bygginguna, m.a. með því að leigja út laus herbergi á almennum markaði,“ segir í skýrslunni.

Frétt mbl.is: Vinna við sjúkrahótel hefst bráðlega

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK