Canopy er nýtt hótelvörumerki í eigu Hilton International sem mun opna sitt allra fyrsta hótel í Reykjavík í mars 2016. Hótelið verður í flokki lúxushótela og staðsett á Hljómalindarreitnum í miðbæ Reykjavíkur.
Hótelið mun heita Canopy Reykjavik | City Centre og Icelandair hótel munu sjá um reksturinn. Framkvæmdir eru þegar hafnar en auk þess sem núverandi húsum á reitnum verður breytt, verður nýbygging reist þeirra á milli.
„Í upphafi framkvæmda við Hljómalindarreitinn lögðum við upp með að þarna risi nýtt Icelandair hótel,“ er haft eftir Magneu Þórey Hjálmarsdóttur, framkvæmdastjóra Icelandair hótela, í tilkynningu.
„Þegar okkur hinsvegar bauðst tækifæri til að opna fyrsta hótel sinnar tegundar í heiminum hér í Reykjavík, og njóta þar góðs af gríðarlegri markaðssetningu áfangastaðarins um heim allan gegnum öflugt sölukerfi Hilton International, þá þurftum við ekki að hugsa okkur tvisvar um,“ er haft eftir Magneu.
Þá telur hún mikinn ávinning í að auka fjölbreytni í gistiflóru borgarinnar frá því sem nú er og fjölga erlendum vörumerkjum. „Samstarfsaðilar okkar erlendis leggja mikinn metnað og jafnframt fjármuni í að markaðssetja þetta nýja vörumerki á komandi misserum og árum.“
Í tilkynningu segir að Canopy sé nýtt og ferkst lífstílsvörumerki sem ætlað fyrir þá sem vilja aukin gæði í gistingu og veitingum, en jafnframt að upplifa sérkenni hvers áfangastaðar á hótelinu. Því verður lögð lykiláhersla á sterka skírskotun í íslenskt mannlíf, menningu og hönnun í innviðum hótelsins, en lúta á sama tíma kröfum Canopy um gæði gistingar og þjónustu. Hótelið mun jafnframt njóta góðs af erlendri markaðssetningu keðjunnar um heim allan.
Canopy Reykjavik | City Centre verður með 115 herbergjum að meðtöldum svítum. Hótelið verður í samræmi við hugmyndafræði Canopy þar sem mikil áhersla er lögð á fallega hönnun og afslappað og þægilegt umhverfi.
Í bakgarði verður veitingarekstur sem á að njóta sín vel á sólríkum dögum. Á efstu hæð verða bar og veitingastaður ásamt sérstakri matsölu þar sem nálgast má fjölbreytt úrval ferskra smárétta úr sérvöldu íslensku hráefni sem hótelgestir geta tekið með sér í nesti áður en þeir leggja af stað í næstu skoðunarferð.
Haft er eftir Patrick Fitzgibbon, aðstoðarframkvæmdastjóra þróunar hjá Hilton International, að Ísland sé orðinn einn vinsælasti áfangastaður heims í augum ferðamanna þar sem ferðamannafjöldi hefur þrefaldast undanfarin 15 ár. Þess vegna sé viðeigandi að fyrsta hótelið undir merki Canopy verði opnað á Íslandi
Gary Steffen, aðalframkvæmdastjóri Canopy hjá Hilton, segir þá að mikil vinna hafi verið lögð í að rannsaka þarfir og væntingar viðskiptavina á öllum stigum þegar hugmyndafræði Canopy var mótuð. Hann segir Canopy vera fullt tilhlökkunar að opna hótelið hér á landi.