Róbert Wessman, forstjóri Alvogen, segir að sér hafi runnið blóðið til skyldunnar þegar ljóst var að loka ætti verksmiðju Actavis á Íslandi. „Það væri mjög spennandi að geta tryggt þessi störf áfram í landinu og sérstaklega þegar ég átti á sínum tíma þátt í að byggja upp þessa verksmiðju og starfsemi,“ segir Róbert í samtali við mbl.
Á mánudaginn tilkynnti Actavis að ákvörðun hefði verið tekin um að færa framleiðslu lyfjaverksmiðjunnar til annarra framleiðslueininga samstæðunnar fyrir mitt ár 2017. Þetta væri gert í hagræðingarskyni og væri liður í því að tryggja samkeppnishæfni fyrirtækisins á alþjóðavettvangi. Um 300 manns vinna í verksmiðjunni í Hafnafirðir og missa vinnuna.
Fréttablaðið greindi frá því í morgun að Róbert hefði lagt fram tilboð í verksmiðjuna. Hann er fyrrum forstjóri fyrirtækisins en lét af störfum árið 2008. Þar kemur fram að samkvæmt heimildum blaðisins nemi tilboðið um fjórum og hálfum milljarði króna.
Róbert vill ekki gefa upp fjárhæð tilboðsins og vísar til þess að um trúnaðarmál sé að ræða. Hins vegar segir hann að verðið sem Alvogen hefur boðið sé mjög gott miðað við framlegð rekstursins.
Róbert byrjaði að nálgast stjórnendur Actavis fyrir um ári síðan þegar hann taldi ljóst í hvað stefndi með starfsemina á Íslandi, en líkt og fram hefur komið hefur Actavis farið í gegnum margvíslegar breytingar á undanförnum árum með yfirtökum og samrunum innan lyfjageirans. Eftir nýlegan samruna við bandaríska frumlyfjafyrirtækið Allergan er fyrirtækið orðið eitt af 10 stærstu lyfjafyrirtækjum í heimi.
Fyrir um tveimur mánuðum síðan lagði hann fyrst fram tilboð í verksmiðjuna en samningar náðust ekki, m.a. vegna þess að stjórnendur Actavis vildu ekki láta íslenskan markað fylgja kaupunum, heldur flytja framleiðsluna fyrir íslenskan markað til annarra framleiðslueininga, líkt og fram kom í tilkynningu Actavis.
Róbert ítrekaði þá tilboðið fyrir nokkrum dögum. „Ef Actavis hefði áhuga á að endurskoða það er ljóst að við myndum taka við þessum 300 störfum,“ segir Róbert.
Líkt og fram hefur komið er Alvogen að byggja hátæknisetur í Vatnsmýrinni en áætluð verklok eru í lok árs 2016. Setrið verður um 11 þúsund fermetrar og nemur fjárfestingin um 25 milljörðum króna. Róbert bendir á að Alvogen sé ekki með verksmiðju fyrir hefðbundin lyf á Íslandi þar sem líftæknilyf verða þróuð og framleidd í Vatnsmýrinni.
Alvogen er hins vegar með verksmiðjur í Bandaríkjunum, Austur-Evrópu og Asíu. Róbert segir að fyrirtækið hafi þurft að byggja aðra verksmiðju og hafði hann hugsað um Taívan í því sambandi þar sem starfsemi fyrirtækisins er tiltölulega mikil þar í landi.
Í stað þess að byggja hana segir Róbert að Alvogen gæti nýtt verksmiðjuna í Hafnafirði þar sem Actavis á Íslandi er þegar samþykkt á alla helstu markaði heims. Þá segist hann jafnframt hafa áhuga á því að fjárfesta frekar í íslenska markaðnum til þess að starfsemin gæti borið sig til framtíðar.
Actavis hefur borið því við að hagkvæmara sé að flytja framleiðslu verksmiðjunnar til annarra eininga. Aðspurður hvort verksmiðja á Íslandi væri hagstæður kostur fyrir Alvogen segir Róbert að framleiðsla hennar sé dýrari. Ástæðan er fyrst og fremst sú að fjöldi framleiddra vörueininga er margfalt meiri en í öðrum verksmiðjum Actavis. Þannig sé flækjustigið meira og kostnaðurinn hærri. Með réttu vöruvali og vali á mörkuðum væri hins vegar hægt að einfalda starfsemina og gera verksmiðjuna hagkvæmari.
Róbert segist treysta sér til þess að reka starfsemina á hagkvæman hátt og vísar til þess að hann hafi tekið ákvörðun um að byggja mjög dýra starfsemi í Vatnsmýrinni í stað þess að byggja hana erlendis. „Ég treysti mér fullkomlega til þess að reka þessa verksmiðju ef við náum saman,“ segir Róbert.
Ekki náðist í Actavis við vinnslu fréttarinnar.