Milljarðamæringur með bíladellu

Eignir Kínverjans Li Shufu eru metnar á um 387 milljarða íslenskra króna og hann situr á lista tímaritsins Forbes yfir ríkustu menn heims. Fyrir helgi sagðist hann ætla að leggja um sex milljarða króna í íslenska fyrirtækið Car­bon Recycl­ing In­ternati­onal sem framleiðir endurnýjanlegt eldsneyti. En hver er þessi maður og hvers vegna er hann að fjárfesta á Íslandi?

Líkt og fram hefur komið ætlar  kín­verska fjár­fest­ing­ar­fé­lagið Geely Hold­ing Group að leggja 45,5 millj­ón­ir doll­ara, sem jafn­gild­ir sex millj­örðum ís­lenskra króna, til hluta­fjáraukn­ing­ar í fyrirtækinu CRI sem var stofnað árið 2006 í Reykjavík.

Starfsemi CRI virkar þannig að fyrirtækið fangar koltvísýring sem losaður er frá jarðvarmavirkjun HS Orku í Svartsengi og breytir honum í endurnýjanlegt eldsneyti. Höfuðstöðvarnar eru í Borgartúni 27 en verksmiðjan er í Svartsengi við Grindavík.

Í dag er Geely samstæðan einn af tíu af stærstu bílframleiðendum Kína en fyrirtækið hefur vaxið og dafnað undir stjórn Shufu á síðastliðnum 29 árum. 

Fékk lán frá fjölskyldunni

Geely varð til árið 1986 þegar Shufu bað um lán frá fjölskyldu sinni til þess að stofna fyrirtæki sem framleiddi varahluti fyrir ísskápa. Þróunin var ör hjá fyrirtækinu þar sem Shufu skipti yfir í mótorhjólaframleiðslu árið 1993 en lagði svo bílana fyrir sig árið 1997 og hefur ekki snúið aftur. 

Geely, sem þýðir heppinn á kínversku, seldi um 550 þúsund bifreiðar árið 2013 en markmiðið er að ná sölunni upp í 600 þúsund bíla árið 2015.

Li Shufu er fæddur árið 1963 og býr í Hangzhou í Kína þar sem höfuðstöðvar fyrirtækisins eru. Li er með MSc-gráðu í verkfræði frá Yanshan University og lýsir The Economist honum sem jarðbundnum manni sem brosir mikið.

Frumsamið ljóð í gólfteppinu

Þá segir að eina þekkta „sérviska“ hans snúi að ljóðasmíðum þar sem hann hefur gefið út yfir tuttugu ljóð. Eitt þeirra ofið í gólfteppið í höfuðstöðvum Geely í Hangzhou.

„Viðskiptaferillinn“ hófst þegar hann fékk peningaverðlaun við útskrift úr grunnskóla. Hann notaði peninginn til þess að kaupa sér notað hjól og gamla myndavél. Shufu hjólaði síðan um hverfið og tók myndir af ferðamönnum á snyrtistofum og seldi.

Bjó til fyrsta bílinn 10 ára

Í viðtali við Forbes segist Shufu hafa búið til fyrsta bílinn sinn þegar hann var einungis tíu ára gamall. Þá sat hann í sandi í heimabæ sínum Taizhou í Austurhluta Kína og mótaði bíl. Hann hermdi eftir hinum svokölluðu „Red Flag“ bílum sem hann hafði séð við herstöð í nágrenninu en bílarnir voru framleiddir af kínverska ríkinu. 

„Við bjuggum í sveitaþorpi þar sem enginn átti efni á því að kaupa bíl,“ segir hann. „Við vorum öfundsjúk. Við áttum ekki efni á neinum leikföngum og ég gat ekki ímyndað mér að búa til raunverulegan bíl,“ segir Shufu.

Kínverskir framleiðendur „spillt börn“

Þrátt fyrir að Kína sé stærsta markaðssvæði Geely er bílframleiðandinn einn fárra sem hefur notið velgengni utan landssteinana. 

Í samtali við Financial Times segir Shufu að vandamálið hjá kínverskum fyrirtækjum sé að þau þurfi ekki að hugsa um það hvort einhver aðgerð sé til þess fallin að auka samkeppnisforskot þeirra á alþjóðamarkaði. Hann sakaði kínversk stjórnvöld um að hafa breytt innlendum bílframleiðendum í „spillt börn“ og vísaði til þess að erlendir framleiðendur mega opna verksmiðjur í Kína gegn því að verksmiðjurnar séu 50% í eigu innlendra aðila. Með þessu sleppa erlendir framleiðendur við tolla og flutningsgjöld og innlend fyrirtæki njóta góðs af sölu erlendu framleiðendanna.

Volvo á uppleið

Líkt og að framan segir hefur Geely, ólíkt öðrum kínverskum bílframleiðendum, skapað sér nafn utan Kína, þar sem félagið festi kaup á sænska bílframleiðandanum Volvo árið 2010 fyrir 1,8 milljarða bandaríkjadollara og fyrirtækinu United Kingdom‘s London Taxi Company sem rekur svörtu leigubílana í London árið 2014. 

Volvo hefur vaxið og dafnað eftir samrunann en útlitið var svart árið 2010, þegar svo virtist sem framleiðandinn væri á sömu leið og sænski frændi hans Saab, sem hefur átt í miklum erfiðleikum.

Salan hefur hins vegar aukist síðan og á síðasta ári sagðist Geely ætla að verja 11 milljörðum dollara í að þróa nýjar tegundir af Volvo og byggja nýjar verksmiðjur þar sem markmiðið er að selja 800 þúsund bíla á ári fyrir árið 2020.

Telur framtíðarlausnina í hendi CRI

Í viðtali í Morg­un­blaðinu um helgina sagði Shufu að fjár­fest­ing­in í CRI væri liður í sam­fé­lags­ábyrgð fyr­ir­tæk­is­ins sem miði að því að draga úr út­blæstri bíla og minnka meng­un. Hann met­ur það svo að sú tækni sem CRI hafi yfir að ráða sé góð framtíðarlausn til að ná því mark­miði.

„Við stöndum frammi fyrir því að annars vegar erum við með takmörkun á orkugjöfum og hins vegar verðum við að hafa hreinna loft. Loftslagsbreytingarnar eru mikil áskorun og því þarf að huga vel að því að í framtíðinni verði ökutæki knúin með endurnýjanlegri orku. Þess vegna er fjárfestingin í CRI mikilvæg fyrir okkur, þar sem fyrirtækið er komið með lausn sem við viljum halda áfram að prófa,“ sagði Shufu.

Geely skrifaði undir yfirlýsingu um fjárfestinguna í CRI í síðustu …
Geely skrifaði undir yfirlýsingu um fjárfestinguna í CRI í síðustu viku mbl.is/Kristinn Ingvarsson
Volvo hefur verið á uppleið frá yfirtöku Geely.
Volvo hefur verið á uppleið frá yfirtöku Geely.
Li Shufu, KC Tran, for­stjóri CRI og Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir.
Li Shufu, KC Tran, for­stjóri CRI og Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir. mbl.is/Kristinn
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK