Elín Hirst, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, gagnrýnir fyrirhugaða byggingu nýrra höfuðstöðva Landsbankans. Hún segir að bankastarfsemi þurfi ekki svo dýran umbúnað og hann sé í raun móðgun við viðskiptavinina. Þetta kemur fram á bloggi hennar.
„Sem kunnugt er áformar Landsbankinn að byggja nýjar höfuðstöðvar við Austurhöfn við hlið Hörpu við Reykjavíkurhöfn. Eins og gefur að skilja falla þessi áform í grýttan jarðveg hjá mörgum. Landsbankinn er að stórum hluta í eigu ríkisins eftir hrunið.
Á sama tíma og það skortir fé til að byggja nýjan Landspítala, sem ætti með fullri virðingu fyrir starfsemi Landsbankans að vera margfalt ofar á forgangslistanum, þá finnst mér vera út í hött að verið sé að ræða þessa hluti yfirleitt, hvað þá á dýrasta stað í bænum,“ skrifar Elín á blogg sitt.
Hvenær sjáum við alvöru samkeppni á bankamarkaði? skrifar þingmaðurinn
Bankastarfsemi þarf ekki þennan dýra umbúnað, skrifar hún. „Hann er í raun móðgun við viðskiptavinina, sem fá afar lága vexti af innlánum en borga bæði háa útlánsvexti og allskonar þjónustugjöld. Og hver leggur leið sína í banka nú til dags? Flestir höndla með fé sitt og viðskipti við banka í gegnum netið. Hvenær ætli við sjáum alvöru samkeppni á bankamarkaði þar sem svo kallað „overhead" er í lámarki en aðaláherslan lögð á traust og góð greiðslukjör fyrir viðskiptavininn. Slíkur banki myndi sópa að sér viðskiptum,“ skrifar Elín.
Efnahagshrunið var okkur Íslendingum mikið áfall. Eitt jákvætt gátu menn hins vegar fundið við hrunið, að vonandi yrði það okkur lexía um langan aldur, þótt dýrkeypt væri, um hvernig á ekki að standa að hlutunum. Þess vegna veldur það vonbrigðum ef menn hafa ekkert lært og ætla aftur sömu leið, segir ennfremur í færslu Elínar.