Á meðan augu heimsins beinast að skuldavanda Grikklands og risaskellinum sem varð á kínverska hlutabréfamarkaðinum þá virðist sem ófarir Púertó Ríkó hafi fallið í skuggann hjá fjölmiðlum. Litla eyríkið er þó í miklum vanda statt og í þannig stöðu gagnvart Bandaríkjunum að áhrifanna af skuldavanda Púertó Ríkó gæti gætt víða.
Í lok júní tilkynnti ríkisstjórinn, Alejandro García Padilla, að ekki yrði hægt að greiða þá 72 milljarða dala sem ríkissjóður skuldar. Til að setja upphæðina í samhengi þá er landsframleiðsla Púertó Ríkó rösklega 100 milljarðar dala og íbúafjöldinn ríflega 3,5 milljónir. Er nú svo komið að bróðurparturinn af tekjum ríkissjóðs fer í að borga af lánum.
Hvaðan kom eiginlega þetta skuldafjall, og hvers vegna gengur svona erfiðlega að standa í skilum?
Efnahagsvandi Púertó Ríkó varð ekki til á einni nóttu. Efnahagslífið var lengi mjög háð styrkjum frá bandarísku alríkisstjórninni sem gerði vel við fyrirtæki sem settu upp rekstur á eyjunni. Að sögn Vox var þetta gert til að vega upp á móti þeirri ákvörðun að binda í lög að lágmarkslaun á eyjunni skyldu vera þau sömu og á meginlandinu. Árið 2006 var skrúfað fyrir þessa styrki og fríðindi en reglur um lágmarkslaun stóðu óbreyttar og eitt af öðru hurfu fyrirtækin á brott. Bandaríski fjárfestirinn Peter Schiff segir það ekki síst lágmarkslaunastefnunni að kenna að samkeppnishæfni Púertó Ríkó sé eins slæm og raun ber vitni og stór hluti eyjaskeggja í dag atvinnulaus.
Það hjálpar heldur ekki til að mikill fjöldi fólks hefur yfirgefið eyjuna í leit að betra lífi. Íbúar Púertó Ríkó hafa bandarísk vegabréf og flykkjast til svæða eins og Flórída til að finna laus störf og betri laun. Undanfarin ár hafa á bilinu 50.000 eyjaskeggjar flutt á brott árlega svo ekki fjölgar í hópi skattgreiðenda.
Í ofanálag er atvinnulífið bæklað af aldagömlum reglum sem setja fyrirtækjum á eyjunni miklar skorður hvað varðar bein viðskipti við nágrannalöndin. Blaðamaður Guardian bendir á að nær öll flutningaskip í höfninni í höfuðborginni San Juan eru á leið til eða frá Bandaríkjunum.
Kjarni vandans hlýtur samt að vera afleit hagstjórn þar sem illa var farið með opinbera sjóði. Pólitíkusar fjármögnuðu kosningaloforðin með lántökum og skuldirnar hrönnuðust upp. Ekki var erfitt að selja skuldabréfin því bandarískir fjárfestar njóta sama skattahagræðis af kaupum á ríkisskuldabréfum frá Púertó Ríkó og á skuldabréfum ríkja á meginlandi Bandaríkjanna, en nutu hærri vaxta í Púertó Ríkó. Fyrir vikið eiga fjölmargir bandarískir fjárfestinga- og lífeyrissjóðir skuldabréf frá eyríkinu og gæti það komið illa við stóra hópa fólks sem hefur jafnvel ekki hugmynd um að það eigi mikið undir í því hvernig málin þróast suður í Karíbahafinu.
Ekki verður auðvelt að leysa úr vandanum. FT bendir á að skuldasafnið sé mjög flókið, gefið út af mörgum stofnunum, með ólíkum skilmálum og ábyrgðum. Kröfuhafarnir eru stór og fjölbreyttur hópur sem ekki verður auðvelt að koma að samningaborðinu. Þvert á móti er útlit fyrir að þurfi að útkljá málin fyrir dómstólum sem þýðir að Púertó Ríkó gæti, rétt eins og Argentína, lent í langdregnum málarekstri og ekki fengið skýra niðurstöðu fyrr en eftir dúk og disk.
Ekki gengur að leita á náðir Washington því þó að Púertó Ríkó sé strangt til tekið „sérstakt sambandssvæði“ Bandaríkjanna þá hefur landið ekki þá lagalegu stöðu sem þyrfti til að geta leitað á náðir alríkisstofnana sem leyst gætu ríkissjóð úr snörunni. Ekki er heldur mögulegt að fara sams konar gjaldþrotaleið og t.d. Detroit. Til þess þyrfti sérstakt leyfi frá Bandaríkjaþingi.
Fræðilegur möguleiki væri að Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn gripi inn í málin en það dregur úr líkunum á að sú leið verði farin að Púertó Ríkó er ekki sjálfstætt ríki í skilningi laganna heldur hluti af sambandsríki. Ríkisstjórn Baracks Obama hefur gefið skýrt til kynna að Washington muni ekki koma til bjargar.
Líkt og á Grikklandi getur skuldavandinn líka haft miklar pólitískar afleiðingar. Forsetakosningar eru á næsta leiti og á stöðum eins og Flórída gætu brott fluttir eyjaskeggjar haft mikið að segja um hvaða frambjóðandi verður hlutskarpastur. Skuldavandinn gæti líka litað forkjör repúblikana og demókrata því þó að íbúar Puertó Ríko hafi ekki kosningarétt í forsetakosningunum þá fá þeir að taka þátt í forkjöri stóru flokkanna og eiga það marga kjörfulltrúa að skipt getur verulegu máli fyrir þá sem eygja að flytja inn í Hvíta húsið.