Ein stærsta áskorun Íslendinga er að auka útflutningstekjur frá fyrirtækjum sem byggja útflutning sinn ekki á náttúruauðlindum landsins heldur á hugviti, þekkingu og tækni.
Þetta segir hagfræðingur Viðskiptaráðs Íslands en ráðið hefur gefið út nýja skýrslu um stöðu efnahagsmála og langtímahorfur í hagkerfinu.
Þar kemur meðal annars fram að til að viðhalda hagvexti til næstu 20 ára þurfi útflutningstekjur að nær tvöfaldast. Þrjár stærstu útflutningsgreinarnar, ferðaþjónusta, sjávarútvegur og orkuframleiðsla, byggja allar á náttúruauðlindum landsins sem eru takmarkaðar. Því þurfi vöxtur í útflutningstekjum að koma frá alþjóðageiranum þar sem engar takmarkanir eru á vexti, að þvaí er fram kemur í umfjöllun um mál þetta í ViðskiptaMogganum í dag.