Íslenska krónan allt of hátt skráð

Krónan er ofmetnasti gjaldmiðill í heimi, samkvæmt kenningum hamborgarahagfræðinnar.
Krónan er ofmetnasti gjaldmiðill í heimi, samkvæmt kenningum hamborgarahagfræðinnar. mbl.is/Golli

Íslenska krónan er ofmetnasti gjaldmiðill í heimi, að minnsta kosti ef marka má Big Mac-vísitöluna svonefndu. Krónan þyrfti að veikjast talsvert gagnvart öllum helstu gjaldmiðlum í heimi til þess að verð á hamborgaranum sívinsæla í þeim löndum verði það sama og hér á landi í krónum talið.

Breska vikublaðið The Economist, sem hefur birt vísitöluna í hartnær þrjátíu ár, birti nýjustu tölur sínar seinasta fimmtudag. Samkvæmt þeim, sem og lauslegum útreikningum mbl.is, er gengi íslensku krónunnar ofmetið um 59% gagnvart Bandaríkjadalnum, 88% gagnvart evrunni og 35% gagnvart norsku krónunni, svo nokkur dæmi séu tekin.

Vísitalan er byggð á kenningunni um jafnvirðisgengi en hún reynir að leita svara við því hvort gjaldmiðlar séu „rétt“ eða „rangt“ skráðir miðað við kaupmátt. Grundvallast hamborgarahagfræðin á þeirri hugmynd að hundrað krónur eigi að kaupa sama magn af vöru í öllum löndum.

Big Mac-hamborgarinn er eins í flestum löndum og er hugmyndin því sú að hann eigi að kosta það sama í Bandaríkjadölum í þeim ríkjum þar sem hægt er að kaupa hann.

Viku­blaðið ber því sam­an verð á borg­ur­un­um á milli landa. Kosti hann minna í doll­ur­um talið er gengið sagt of sterkt en ef hann kost­ar meira er gengið of veikt.

Ellefu sinnum dýrari en í Venesúela

Sem kunnugt er yfirgaf McDonald’s landið á haustmánuðum 2009 og fæst borgarinn því ekki lengur hér. Var þess vegna ákveðið að notast við Heimsborgarann á Metro til viðmiðunar, en hann kostar 1.036 krónur.

Útreikningarnir leiða í ljós, eins og áður sagði, að hamborgarinn er sá dýrasti í heimi. Hann er til að mynda um ellefu sinnum dýrari en í Venesúela, þar sem finna má ódýrasta Big Mac-hamborgarann, og fjórum sinnum dýrari en í Indlandi.

Næstdýrasti borgarinn í heiminum fæst í Sviss, en hann kostar 926 krónur og hefur hækkað nokkuð í verði að undanförnu, reyndar eins og sá íslenski, sem kostaði 949 krónur fyrir ári.

Háir tollmúrar og skattar

Þess ber hins vegar að geta að þessi mælikvarði er Íslandi nokkuð óhagstæður. Kjöt er í fyrsta lagi heldur dýrt hér á landi, sem margir sérfræðingar rekja til óhag­kvæmni ís­lensks landbúnaðar, og í öðru lagi er sala á ham­borg­ur­um jafn­framt tal­in minni hér en ann­ars staðar í heim­in­um, að minnsta kosti á Vest­ur­lönd­un­um.

Þá hefur það vakið nokkra athygli að gjaldmiðlar ríkja sem hindra - með háum toll­múr­um - inn­flutn­ing á kjöti á heims­markaðsverði sýn­ast of­metn­ir en gjald­miðlar ríkja sem hafa frjálsan inn­flutn­ing á land­búnaðar­vörðum, svo sem Hong Kong og Singa­púr, virðast marg­ir hverj­ir vera van­metn­ir.

Þá hef­ur skatt­ur­inn auðvitað sitt að segja. Hár virðis­auka­skatt­ur á Íslandi, sem og ann­ars staðar á Norður­lönd­un­um, hækk­ar verðið á Big Mac um­tals­vert og ger­ir það að verk­um að gjald­miðlar þess­ara ríkja eru of­metn­ir. Ham­borg­ara­hag­fræðin hef­ur ein­mitt verið gagn­rýnd fyr­ir það að taka ekki til­lit til ólíkr­ar skatt­heimtu milli landa.

Vísitala sem þessi er að sjálfsögðu ekki galla­laus­ - og helst til gam­ans gerð - en hún getur þó gefið einhverja vís­bend­ingu um það hve langt frá raun­gengi skráð gengi gjald­miðla er. Það er held­ur ekki að ástæðulausu að The Econom­ist kall­ar hana bestu gjald­miðlavísi­tölu í heimin­um.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK