Hugbúnaðarfyrirtækið LS retail hlaut í ár þrenn verðlaun á árlegri ráðstefnu Microsoft með samstarfsfyrirtækjum sínum, meðal annars aðalverðlaun sem besta sjálfstæða hugbúnaðarhúsið. Fyrirtækið hefur á undanförnum árum meira en fimmfaldað veltu sína og gerir ráð fyrir um fimm milljarða veltu á þessu ári. Magnús Norðdahl, forstjóri félagsins, segir að aukningin hafi verið mest á mörkuðum utan Evrópu og nú megi segja að fyrirtækið sé orðið „raunverulegt alþjóðlegt hugbúnaðarfyrirtæki.“
Magnús er nýkominn heim af ráðstefnunni sem haldin var í Bandaríkjunum, en hann segir að á hverju ári komi þangað samstarfsaðilar Microsoft frá öllum heiminum. Almennt séu þetta um 12 til 15 þúsund manns frá hundruðum fyrirtækja og er bæði um að ræða fyrirlestra þar sem farið er yfir komandi tímabil og fyrra ár gert upp með verðlaunaafhendingu.
„Þetta snýst aðallega fyrir okkur hjá LS retail að hitta yfirmenn Microsoft og fara yfir okkar plön og kynnast því hver stefnan verður næstu 12 mánuðina,“ segir Magnús. Fyrirtækið hafði áður unnið svæðisbundin verðlaun fyrir Evrópumarkað árið 2009 og 2014, en í ár bættust heldur betur skrautfjaðrir við í hattinn. Fékk félagið verðlaun fyrir besta sjálfstæða hugbúnaðarhús ársins (e. Independent software vendor) í Evrópu, á Ameríkumarkaði og svo á heimsvísu.
LS retail þróar hugbúnað fyrir verslanir og veitingastaði sem byggir á Dynamics hugbúnaði Microsoft, en milljónir fyrirtækja um allan heim nota þann búnað. Magnús segir að með verðlaununum sé verið að verðlauna fyrirtækið fyrir að vera það söluhæsta í geiranum og skila með því hagnaði til Microsoft. Segir hann að þetta náist aðallega með því að einbeita sér að þróun búnaðarins sem heildarpakka en ekki að taka að sér sérstök þróunarverkefni fyrir ákveðin fyrirtæki.
Með þetta að leiðarljósi hefur fyrirtækið náð að vaxa mikið og selt hugbúnaðinn um allan heim og segir Magnús að nú séu um 220 endursöluaðilar í 75 löndum sem starfi fyrir fyrirtækið í sölumálum. Með þessu móti nær fyrirtækið að selja „mikinn massa um allan heim og alla daga,“ segir hann. Í ár gerir hann ráð fyrir að velta fyrirtækisins nái um fimm milljörðum króna og segir hann að mikil aukning undanfarið sé nú að ná að skjóta þeim á toppinn hjá Microsoft.
Í heild starfa 150 manns hjá LS retail, en af þeim eru um 100 hér á landi. Magnús segir að öll þróunarvinnan eigi sér stað hér á landi, en hugbúnaðurinn er í dag í notkun hjá yfir 3500 fyrirtækjum í 120 löndum. Segir Magnús að í heild noti yfir 50 þúsund verslanir kerfi frá fyrirtækinu og að notendur þess séu milljónir manna á hverjum degi.
Fyrir um fimm árum var stærsti markaðurinn Evrópa þar sem um 70% af tekjum fyrirtækisins komu frá. Salan hefur aukist þar mikið, en Magnús segir að samt sem áður sé hlutfall álfunnar nú komið niður í 40% meðan mesti vöxturinn hafi verið í Suður- og Norður-Ameríku sem séu nú með 20% hlutdeild, Austur-Asíu og Kyrrahafssvæðinu sem sé með 20% hlutdeild og Miðausturlöndum, Indlandi og Afríku, þar sem 20% af tekjunum koma nú frá. „Það er mestur vöxtur utan Evrópu og við erum orðin raunverulegt alþjóðlegt hugbúnaðarfyrirtæki,“ segir Magnús.
Hann segir að verðlaunin frá Microsoft skipti fyrirtækið miklu máli og séu ekki bara skraut, heldur raunverulegir viðskiptahagsmunir. Þannig bendir hann hann á að hugbúnaðarfyrirtæki selji óefnislega hluti og því byggi öll sala á trausti viðskiptavinarins og trú á því að fyrirtækið sé að gera leiðandi vörur fyrir markaðinn. „Þegar þú hefur náð trú viðskiptavinarins er eftirleikurinn auðveldur,“ segir Magnús um sölumöguleika hugbúnaðarins.
Segir hann að mörg fyrirtæki hafi litla þekkingu á Íslandi og ef hún sé til staðar þá sé hún oftast neikvæð. Nú sé aftur á móti komin upp sú staða að Microsoft hafi valið fyrirtæki frá þessu landi sem besta sjálfstæða hugbúnaðarhúsið og því fara menn vitanlega að velta fyrir sér lausnum þess. „Ef Microsoft er að skoða þá og verðlauna, af hverju er ég þá ekki að skoða þá,“ segir Magnús um viðbrögð margra viðskiptavina.
Talsvert hefur verið rætt um möguleika hugbúnaðarfyrirtækja að starfa hér á landi, sérstaklega vegna fjármagnshafta og krónunnar. Aðspurður hvernig umhverfið hér sé fyrir LS retail segir Magnús að það sé ekkert vandamál að starfa á Íslandi. Segir hann fjármagnshöftin ekki stöðva viðskipti fyrirtækisins að neinu viti.
„Það sem þarf aftur á móti að fjárfesta í eru innviðir í stjórnsýslunni,“ segir hann. Segir hann að flestir haldi að útflutningur sé ekkert vandamál frá Íslandi, en að þegar flutt sé út til landa utan Evrópusambandsins eða Bandaríkjanna sé mjög algengt að það komi til svokallaðs afdráttarskatts (e. Withholding tax). „Í mörgum löndum erum við að selja vöru en fáum ekki greitt að fullu vegna skattsins,“ segir Magnús og bætir við að ef opnuð yrði starfsstöð á meginlandi Evrópu væri þetta ekkert mál.
Segir hann það væntanlega einföldustu leiðina, en að það muni gera það að verkum að hluti af hagnaði fyrirtækisins kæmi ekki til Íslands. „Þetta er auka vesen og fáránlegt að þurfa að standa í einhverju slíku vegna innanhúsvandamála hjá Íslandi,“ segir Magnús og bendir á að flestir sem stundi útflutning, t.d. sjávarútvegsfyrirtæki, setji upp starfsstöð þar sem þeir flytja út og leysi þannig vandann, en vandamál LS retail sé að salan sé í svo gífurlega mörgum löndum. „Við erum fórnarlamb eigin velgengni,“ segir hann í smá gríntón, en ljóst er að talsverð alvara fylgir þar á bak við.
Hægt væri að leysa þetta vandamál með endurskoðun á milliríkjasamningum, en Magnús segir að það sé auðvitað ákveðin fjárfesting fyrir ríkið og kalli á aukna vinnu. Segist hann oft fá spurningar af hverju hann geri ekki eitthvað í þessu sjálfur, sem hann telji ekki rétta nálgun. „Það er ekki mitt hlutverk að sinna stjórnsýslu á Íslandi, heldur stunda ég markaðssetningu erlendis,“ segir hann og bætir við að stjórnendur ríkisvaldsins hér verði að finna hjá sér hvort þeir vilji fjárfesta í svona umbótum. Hann tekur þó fram að annars sé mjög gott að starfa á Íslandi og að hér sé gott starfsfólk. Þannig hafi stjórnendur fyrirtækisins ekki rætt það að flytja starfsemina erlendis.
Eins og sagt var frá í frétt mbl.is keypti bandaríski fjárfestingasjóðurinn Anchorage capital fund nýverið fyrirtækið. Magnús segir að þetta hafi ekki haft nein áhrif á stefnu fyrirtækisins, en að helsti kosturinn í hans augum sé að þetta auki sveigjanleika ef það komi til stækkunar fyrirtækisins, til dæmis varðandi aðgang að fjármagni.
Hann segir að nýlega hafi stjórnendur fyrirtækisins samþykkt markmið til næstu fimm ára og þar sé aðallega horf til þess að fara dýpra á þá markaði sem fyrirtækið starfi í dag á. „Það er mikið af tækifærum, jafnvel í löndum sem við höfum verið á í meira en 10-15 ár,“ segir Magnús. Segir hann að stóri steinninn á komandi árum verði áframhaldandi þróun og kynning á skýjaþjónustu og hvernig dreifingu á því verði háttað á heimsvísu. „Það er alveg ný leið og að mörgu leyti áskorun að finna út úr því,“ segir hann en bætir við að það sé einnig leið fyrirtækisins að enn meiri stækkun.