Glæsisnekkjan Octopus sigldi að Reykjavíkurhöfn fyrir stundu en hún er í eigu auðkýfingsins Pauls Allens, sem er annar stofnenda Microsoft.
Octopus er ein glæstasta snekkja veraldar. Hún er 126 metrar á lengd og hefur að geyma tvær þyrlur, fjarstýrð köfunartæki og kafbát.
Ekki liggur fyrir hvort Allen sé sjálfur um borð en hann hefur áður komið til Íslands á snekkjunni. Snekkjan þurfti meðal annars að staldra við í Reykjavík í nokkra daga árið 2012 þegar bilun kom upp í aðalvél skipsins.
Octopus er 16. stærsta snekkja heims.
Myndin var tekin rétt fyrir klukkan fjögur í dag þegar Octopus nálgaðist höfnina.