Engin „flottræfilshöll“ við Hörpu

Steinþór Pálsson, bankastjóri Landsbankans.
Steinþór Pálsson, bankastjóri Landsbankans. mbl.is/Kristinn

Steinþór Pálsson, bankastjóri Landsbankans, segist vera tilbúinn til þess að fara yfir rökin fyrir staðsetningu nýrra höfuðstöðva við Hörpu í Reykjavík. Bæjarstjórn Vestmannaeyja hefur falið Elliða Vignissyni, bæjarstjóra að óska eftir óháðu mati á því hvaða staðsetn­ing sé hag­kvæm­ust fyr­ir höfuðstöðvarnar.

Vestmannaeyjabær er hluthafi í bankanum eftir sameiningu Sparisjóðs Vestmannaeyja og Landsbankans í maí.

Aðspurður hvort það myndi hafa einhver áhrif ef matsskýrsla myndi sýna fram á að önnur staðsetning væri hagkvæmari segir Steinþór að það sé seinni tíma mál að fjalla um. „Það hefur ekki verið haldinn hluthafafundur og við verðum að sjá til hvernig þetta æxlast. Það var vandað til verka eftir margra ára athugun. Niðurstaðan liggur fyrir, en ef hluthafar vilja taka þetta upp og ræða verður að sjá til hvernig fer,“ segir Steinþór sem vildi ekki gefa upp hvort ákvörðunin yrði mögulega endurskoðuð.

Í bókun bæjarráðs Vestmannaeyja þar sem fjallað var um höfuðstöðvarnar í dag segir að var­ast beri að senda þau skila­boð að óráðssía, glæframennska og flott­ræf­ils­hátt­ur verði lát­in viðgangast.

Steinþór segir ekki standa til að byggja neina „flottræfilshöll“. „Við erum frekar að fara úr flottræfilshætti með því að fara úr stóru húsnæði og spara þannig 700 milljónir á ári. Með því að spara 700 milljónir á ári munum við auka bæði hag hluthafa og viðskiptavina,“ segir hann.

Miðbærinn er staðurinn

Aðspurður hvort ekki væri hægt að ná fram enn meiri hagræðingu með byggingu á annarri ódýrari lóð segir hann miðbæinn vera eina kostinn ef ætlunin er að vera þar sem viðskipti eru fyrst og fremst stunduð.

Þá segist hann vita til þess að lítil eftirspurn hafi verið eftir lóðinni þegar Landsbankinn keypti hana. Líkt og fram hefur komið keypti bank­inn lóðina á 957 millj­ón­ir króna af Sít­usi ehf., dótt­ur­fé­lagi Reykja­vík­ur­borg­ar og rík­is­ins. Heild­ar­bygg­ing­ar­magn á lóðinni er 16.500 fer­metr­ar sam­kvæmt deili­skipu­lagi, en miðað við það magn er verð á fer­metra 58 þúsund krón­ur.

Tvö fyr­ir­tæki buðu í lóðina, en til­boð Lands­bank­ans var um 15% hærra en hitt. Líkt og Morgunblaðið hefur áður greint frá var Landsbankanum einnig boðið húsnæði í miðbænum á lægra verði. Mann­verk var eitt þeirra fyr­ir­tækja sem buðu bank­an­um lóð, á Fiskislóð 33-37 á Granda í 101 Reykja­vík, en tilboðinu var hafnað.

Spara byggingarkostnað

„Allir okkar keppinautar sáu sér hag í því að vera á þessu svæði og við komumst að sömu niðurstöðu,“ segir Steinþór og vísar til þess að bæði Íslandsbanki og Arion séu að stækka við sig. Íslandsbanki með viðbyggingu en Arion banki hefur keypt Borgartún 18 af Íslandsbanka. 

Þá bætir hann við að Landsbankinn geti sparað töluvert í byggingarkostnaði með því að vera þarna og samnýta þau bílastæði sem þegar eru á svæðinu.

Eitt þeirra atriða sem bæjarráð Vestmannaeyja gagnrýndi í dag var að ákvörðun bankaráðs kom ekki til form­legr­ar af­greiðslu á hlut­hafa­fundi. Steinþór segir málið hafa verið rætt á hluthafafundi þar sem formaður bankaráðs gerði grein fyrir málinu. Aðspurður sagði hann að fundurinn hefði verið skömmu áður en bæjarráð Vestmannaeyja varð hluthafi í bankanum.

Frétt mbl.is: Flottræfilsháttur viðgengst ekki

Frétt mbl.is: Höfuðstöðvar Landsbankans verða þær stærstu

Afstöðumynd sem sýnir staðsetningu nýju höfuðstöðvanna.
Afstöðumynd sem sýnir staðsetningu nýju höfuðstöðvanna. Mynd/Landsbankinn
Elliði Vignisson, bæjarstjóri í Vestmannaeyjum, hefur gagnrýnt staðsetningu höfuðstöðvanna.
Elliði Vignisson, bæjarstjóri í Vestmannaeyjum, hefur gagnrýnt staðsetningu höfuðstöðvanna. mbl.is/Árni Sæberg
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK