„Það er í mínum huga alveg ljóst að endurhvarf banka til fyrra gjálífs kemur ekki til greina og allra síst hjá Landsbankanum sem er eign ríkis og sveitarfélaga,“ segir Elliði Vignisson, bæjarstjóri Vestmannaeyjabæjar, um áform Landsbankans um að byggja nýjar höfuðstöðvar við Hörpu í Reykjavík.
Bæjarráð Vestmannaeyja er líkt og aðrir fyrrum eigendur Sparisjóðs Vestmannaeyja hluthafi í Landsbankanum eftir yfirtöku þess síðarnefnda á sparisjóðnum.
Á fundi bæjarráðs í dag var fjallað um ákvörðun Landsbankans. „Undrun vekur að ákvörðun bankaráðs Landsbankans hefur ekki komið til formlegrar afgreiðslu á hluthafafundi heldur hyggst bankaráð eitt og sjálft taka slíka ákvörðun,“ segir í bókun bæjarráðs.
Þá telur bæjarráð að því fari fjarri að hluthöfum hafi verið sýnt fram á að mest hagræði skapist fyrir Landsbankann, hluthafa hans og viðskiptavini, „með því að reisa nýja glæsibyggingu á verðmætustu lóð landsins.“
Tekið er undir að hagræðing geti falist í því að fara í heppilegra húsnæði en hins vegar beri að varast að senda þau skilaboð að „óráðssía, glæframennska og flottræfilsháttur verði látin viðgangast. Vítin eru til að varast þau.“
Á fundinum fól bæjarráð bæjarstjóra að óska þegar eftir hluthafafundi í Landsbankanum vegna þessa og kalla þar eftir frekari rökstuðningi. Þá fól bæjarráð bæjarstjóra að óska sérstaklega eftir því að stjórn Landsbanka láti fara fram óháð mat á því hvað staðsetning sé hagkvæmust fyrir Landsbanka Íslands.
Þá segir að horfa eigi til þess að höfuðstöðvunum verði fundin staður annarstaðar en í miðborg Reykjavíkur svo sem í Kópavogi, Garðabæ, Selfossi eða Reykjanesbæ. Þá er vísað til þess að bent hefur verið á að heppilegar lóðir til framkvæmda á höfuðborgarsvæðinu séu í Hvassahrauni.
„Okkur þykir sem hluthöfum í bankanum sjálfsagt að skoða hagræðingu í rekstri hans og gerum okkur vel grein fyrir að bygging nýrra höfuðstöðva kann að vera forsenda slíks. Það kemur hinsvegar ekki til greina í okkar huga að þeir örfáu aðilar sem skipa bankaráð taki prívat ákvarðanir um hvernig slíkt verði gert og byggi 8.000 milljóna höfuðstöðvar á verðmætustu lóð í landinu án þess að við eigendur komum að slíkri ákvörðun,“ segir Elliði Vignisson.
„Við verðum að hafa meiri upplýsingar og axla ábyrgð sem eigendur. Að mínu mati er slíku hinu sama er fyrir að fara hjá ríkinu sem er jú langstærsti eigandinn og þar með landsmenn allir,“ segir Elliði.