Forstjóri Dunkin' Donuts, kleinuhringjastaðarins sem verður brátt opnaður á Íslandi, segist gáttaður á ákvörðun launanefndar í New York um 15 dollara lágmarkslaun fyrir starfsmenn á skyndibitastöðum.
Breytingin á að taka gildi í lok ársins 2018 en í dag eru lágmarkslaunin í New York 8,75 dollarar á tímann.
Forstjórinn Nigel Travis telur að breytingin sé til hins verra. Í samtali við CNN Money segist hann hlynntur því að hógværar hækkanir séu gerðar á lágmarkslaunum en telur 71 prósent hækkun vera hrikalega. „Þetta mun hafa áhrif á lítil fyrirtæki og útibú,“ sagði Travis og benti á að breytingin myndi t.d. koma í veg fyrir nýjar ráðningar hjá Dunkin' Donuts.
Þá bætti hann við að flestir starfsmenn fyrirtækisins, sem eru á lágmarkslaunum, væru skólafólk en ólíklegir framtíðarstarfsmenn. Þá telur hann að 12 dollarar, eða sem jafngildir um 1.600 íslenskum krónum, séu hæfileg lágmarkslaun fyrir starfsmann með fjölskyldu.
CNN bendir hins vegar á að samkvæmt launareikni MIT séu 18,30 dollara lágmarkslaun á tímann nauðsynleg fyrir fjölskyldu með tveimur fyrirvinnum á slíkum kjörum. Travis sagði þá að umræða um launajafnrétti þyrfti að fara fram áður en ákvarðanir sem þessar væru teknar.
Yfirmaður vinnumála í New York á eftir að staðfesta ákvörðun launanefndarinnar.
Á síðasta ári voru 704 nýir Dunkin' staðir opnaðir víða um heim en þar af voru 405 í Bandaríkjunum. Fyrirtækið ætlar að opna 16 staði á Íslandi en sá fyrsti verður á Laugarveginum.