Þrátt fyrir jákvæðar fréttir um að öll stóru matsfyrirtækin hafi hækkað lánshæfiseinkunn ríkissjóðs um einn flokk eru hættumerki til staðar. Viðskiptaráð bendir á að vísbendingar séu um að stjórnvöld hafi ekki verið að draga úr opinberum útgjöldum og greiða niður skuldir líkt og mikilvægt er á þenslutíma.
„Samkvæmt Seðlabanka Íslands gætir þegar þensluáhrifa í íslensku hagkerfi og mun svo áfram vera á næstu árum,“ skrifar Viðskiptaráð. Þá sé nauðsynlegt að draga saman seglin. „Þannig skapar hið opinbera heilbrigt mótvægi gagnvart þeirri útgjaldaaukningu sem á sér stað hjá einstaklingum og fyrirtækjum.“
„Frekari vöxtur opinberra útgjalda á þessum tímapunkti mun leiða til aukinnar þenslu og verri skuldastöðu en ella sem er líklegt til að lækka lánshæfi ríkissjóðs á ný.“
Fitch Ratings hækkaði lánshæfiseinkunn ríkissjóðs á föstudaginn og slóst þannig í hóp Standard & Poor‘s og Moody‘s sem hækkuðu nýlega einkunnina. Er þetta í fyrsta sinn frá hruni sem lánshæfi ríkissjóðs batnar samkvæmt öllum fyrirtækjunum þremur.
Hærri einkunn ríkissjóðs hefur þegar leitt til betra lánshæfis íslensku bankanna og Landsvirkjunar.
Meginorsök þessara hækkana er haftaáætlunin sem matsfyrirtækjunum telja vera bæði ítarlega og trúverðuga.
Gangi afnámsáætlunin eftir ásamt áætlun stjórnvalda um niðurgreiðslu skulda telja fyrirtækin fyrirséð að lánshæfiseinkunn ríkissjóðs hækki enn frekar í náinni framtíð.