„Ég biðst afsökunar á því að við séum ekki í Reykjavík. Ég lofa því að Reykjavík verður einn af okkar mörkuðum,“ segir Ryan Graves, yfirmaður alþjóðastarfsemi Uber. Hann er fyrsti starfsmaður Uber og situr í stjórn fyrirtækisins. Hann er staddur á Íslandi þar sem hann hélt erindi á nýsköpunarráðstefnu í Háskólanum í Reykjavík í dag.
Þrátt fyrir að hafa gefið þetta loforð sagði Graves ekki hvenær nákvæmlega Íslendingar mættu eiga von á starfseminni.
Graves fjallaði um mannaráðningar og sagði það vera jafn mikilvægt fyrir nýsköpunarfyritæki að finna rétta starfsfólkið og að afla fjármagns.
Graves fékk starfið hjá Uber eftir að hann svaraði stofnanda leigubílaþjónustunnar á Twitter árið 2010 og bað hann um að ráða sig. Þá var fyrirtækið aðeins eins árs gamalt en í dag, fimm árum síðar, er það metið á yfir fimmtíu milljarða dollara.
Graves sér um að ráða starfsfólk til þess að stjórna starfsemi Uber í hverri borg fyrir sig. Líkt og áður segir hefur Uber vaxið á ógnarhraða og Graves segir mikilvægt að finna framúrskarandi starfsfólk til þess að stuðla að áframhaldandi vexti. „Ef einhver er ekki klárari en ég á hann ekki heima í liðinu okkar,“ sagði Graves léttur.
Við ráðningar segist hann leggja áherslu á að finna fólk sem sýni frumkvæði en telur að fyrirtæki eigi síður að einblína á ferilskrá eða menntagráður. Hann biður umsækjendur um að vinna viðskiptaáætlun fyrir borgina og ef áætlunin er góð verður hún notuð. Þannig segir hann hægt að sjá hvort viðkomandi einstaklingur skilji vörumerkið og geti þróað það áfram.
Þá segir Graves ekki síður mikilvægt að mannauðurinn sé fjölbreyttur og bendir á að sá sem stjórni starfseminni í Washington þurfi t.d. að hafa aðra kosti en einhver í annarri borg.
Graves telur mikilvægt að fyrirtæki gefi sér nægan tíma í ráðningar. Jafnvel þótt vöxturinn sé hraður, líkt og hjá mörgum nýsköpunarfyrirtækjum. „Ég er fylgjandi hraða í öllu nema ráðningum,“ sagði Graves og vísaði til þess að tímafrekt væri að þjálfa nýtt starfsfólk þar sem fólk þurfi vanalega nokkra mánuði til þess að koma sér vel inn í hlutina. „Þú vilt ekki fjárfesta öllum þessum tíma í rangri manneskju. Þá er betra að taka sér lengri tíma og finna réttan aðila,“ segir Graves.
Líkt og greint var frá í desember sl. hefur Uber safnað nægilega mörgum undirskriftum til þess að fyrirtækið geti hafið starfsemi í Reykjavík. Er nú hægt að skrá sig sem bílstjóra á síðunni. Líkt
Uber á enga bíla og engir starfsmenn eru hjá fyrirtækinu. Hins vegar tengir fyrirtækið farþega og almenna ökumenn saman í gegnum appið sitt. Mörg stéttarfélög leigubílstjóra hafa séð þróunina sem ógn og telja að unnið sé gegn hagsmunum stéttarinnar. Hafa þau sagt að bílstjórarnir hafi ekki réttindi til aksturs og reynt að koma í veg fyrir að leigubílar, sem ekki eru á venjulegum leigubílastöðvum, séu notaðir í slíkan akstur.