„Það er mikill misskilningur að MS vilji ekki að minni aðilar fái þrifist. Það er síður en svo,“ segir Ari Edwald, sem tók við starfi forstjóra Mjólkursamsölunnar 1. júlí síðastliðinn.
Í samtali í ViðskiptaMogganum í dag segist hann fagna nýrri samkeppni og að hún trufli MS ekki á neinn hátt. „Ég held að aðstæður fyrir lítil fyrirtæki sem vilja framleiða úr mjólk hafi batnað verulega undanfarið,“ segir Ari.
Í nýju starfi segist Ari vilja halda áfram með það starf sem unnist hefur í skyrútflutningi og reyna að ná meiri árangri á því sviði.