Gjaldeyriskaup Seðlabankans í júlí voru þau mestu í einum mánuði frá upphafi. Alls keypti bankinn 265 milljónir evra á millibankamarkaði með gjaldeyri í síðasta mánuði, og var hlutdeild hans í heildarveltunni á gjaldeyrismarkaði ríflega 61 prósent.
Til samanburðar keypti Seðlabankinn 201 milljón evra í júnímánuði, sem var þá langstærsti mánuðurinn fram að því hvað gjaldeyriskaup bankans varðar. Í júlí í fyrra námu gjaldeyriskaupin 83 milljónum evra, og er því um ríflega þreföldun að ræða í nýliðnum júlí frá sama mánuði fyrir ári síðan.
Þetta kemur fram í morgunkorni Greiningar Íslandsbanka.
Það sem af er ári hefur Seðlabankinn keypt 816 milljónir evra á millibankamarkaði inn í gjaldeyrisforða sinn en það er 140 prósentu aukning frá síðasta ári. Ríflega helmingur kaupanna í ár átti sér stað í júní og júlí en það endurspeglar mikið hreint gjaldeyrisinnflæði til Íslands á tímabilinu þar sem gengi krónu hefur á sama tíma styrkst lítillega.
Samkvæmt tölum Seðlabankans nam hreinn gjaldeyrisforði, þ.e. gjaldeyriseignir að frádregnum öllum skuldum í gjaldeyri, andvirði 119 milljarða króna í júnílok. Hafði forðinn þá rúmlega tvöfaldast á þennan kvarða frá áramótum, en þá nam hann 47 milljörðum króna.
Íslandsbanki hefur áður áætlað að forðinn gætu numið um 120 til 130 milljörðum króna í lok ársins en talið er að miðað við þróunina undanfarið og útlit fyrir gjaldeyrisflæði á komandi mánuðum gæti það mat reynst varfærið.
„Staða gjaldeyrisforðans verður því væntanlega mun sterkari í árslok en raunin var í ársbyrjun 2014, þegar hreinn forði var neikvæður, og burðir Seðlabankans til að draga úr áhættu vegna greiðslujafnaðaráfalls að sama skapi meiri.“
Bent er á að hin hliðin á gjaldeyriskaupunum sé sú að Seðlabankinn er í raun að fjölga krónum í umferð þegar hann safnar í forðann.
Hins vegar hefur bankinn bent á að á móti gjaldeyriskaupunum hafi peningamagn minnkað með auknum innstæðum í Seðlabankanum og sölu eigna ESÍ.
„Stærsti þátturinn í þróun peningamagns tengt losun hafta og gjaldeyrismarkaði á næstunni verður þó væntanlega ráðstöfun stöðugleikaframlags/-skatts slitabúanna á komandi misserum, en hún gæti leitt til töluverðrar minnkunar á peningamagni í umferð og vegið þannig gegn áhrifum gjaldeyriskaupanna,“ segir Greining Íslandsbanka.