IKEA er á lokametrunum að hanna nýja húsgagnalínu sem eingöngu verður búin til úr pappír. Sófar, hillur, borð og stólar. Allt úr endurunnum pappír sem hægt er að móta í nánast hvað sem er.
Blaðamaður Gizmondo fór nýlega á vörusýningu IKEA í Svíþjóð, sá nokkrar frumgerðir og segir húsgögnin líta frábærlega út. Hann segir pappann verða grjótharðan og helst líkjast plasti í viðkomu en þó léttari. Hönnuður hjá IKEA sagði honum að aðferðin svipaði helst til þess að búa til eggjabakka. Verið væri að færa þá hönnun yfir á næsta stig.
Áætlað er að koma pappalínunni í verslanir í maí 2017 eða eftir tæp tvö ár.
Michael Nickolic, einn hönnuðurinn á bak við húsgögnin, segir að línan sé alls ekkert gæluverkefni hjá IKEA . Fyrirtækið hefur þegar byggt verksmiðju í kringum pappírshúsgögnin í Svíþjóð en framleiðslan á að vera eins umhverfisvæn og hægt er.
Verðið á húsgögnunum verður þá í algjöru lágmarki þar sem einhverjir munir munu aðeins kosta nokkra dollara að því er fram kemur á vefsíðu Gizmondo.
Á vefsíðu Gizmondo má sjá fleiri myndir af húsgögnunum.