Bill Gates lét framleiða vél sem getur breytt hægðum í vatn eða rafmagn og nú hefur hann látið prófa hana í borginni Dakar í Senegal. Markmiðið er að draga úr sjúkdómahættu og auka aðgengi manna að vatni.
Vélin nefnist Omni Processor en Gates vakti athygli á henni fyrr á árinu þegar hann birti myndband af sér að drekka vatn sem vélin hafði framleitt. Í myndbandinu kemur fram að vatnið sem Gates er að drekka hafi verið hægðir einungis fimm mínútum áður.
Í Dakar búa um 3,4 milljónir manna en um þriðjungur þeirra hefur ekki aðgang að skólpkerfi borgarinnar. Í staðinn eru hægðirnar geymdar í tönkum en margir eiga ekki kost á því að fá sérstaka þjónustu til að tæma tankana og gera það því sjálfir með tilheyrandi sjúkdómahættu.
Bill og Melindu Gates sjóðurinn fjárfesti nýlega í fyrirtækinu Janicki til þess að vinna bót á ástandinu en fyrirtækið hannaði vélina og hefur nú komið einni fyrir í Dakar. Vélin sér um að hreinsa úrganginn þannig úr verður drykkjarhæft vatn. Þá umbreytir vélin úrganginum einnig í rafmagnið sem hún gengur fyrir.
Prufukeyrslunni er nú nánast lokið og Gates segir niðurstöðurnar lofa góðu. Þá er markmiðið að koma sambærilegum vélum fyrir í fleiri borgum.
Hér má sjá myndband um vélina:
<iframe allowfullscreen="" frameborder="0" height="315" src="https://www.youtube.com/embed/bVzppWSIFU0" width="560"></iframe><div id="embedded-remove"> </div>