Greiningardeild Arion banka spáir því að árstaktur verðbólgunnar fari hratt hækkandi á næstunni. Hluti af skýringunni liggur í því að olíuverð fór hríðlækkandi síðastliðið haust og lækkaði heimsmarkaðsverð á olíu í kringum 50% á stuttum tíma.
Samhliða því lækkuðu flugfargjöld til útlanda og eldsneytisverð innanlands umtalsvert og fór verðbólgan hratt lækkandi í kjölfarið.
Talið er að þróunin framundan muni frekar litast af hækkunum á innlendum neysluvörum í kjölfar kjarasamninga og að það muni þrýsta ársverðbólgunni hratt upp á við þar sem um er að ræða töluvert meiri verðlagshækkanir en á sama tíma í fyrra.
Í spá greiningardeildarinnar fyrir næstu mánuði er gert við ráð fyrir að gengi krónunnar og eldsneytisverð standi í stað en nokkrar líkur eru taldar á því að eldsneytisverð haldi áfram að lækka.
Einnig er talið mögulegt að gengi krónunnar styrkist á komandi mánuðum ef horft sé til gjaldeyrisinnflæðis inn í landið að undanförnu. Því gæti svo farið að verðbólguspáin verði færð niður á við á næstu mánuðum.
Greiningardeildin spáir 0,2 prósent hækkun vísitölu neysluverðs í ágúst þannig að ársverðbólga lækki lítillega og standi í 1,8 prósent gangi spáin eftir. Þá er talið að verðbólga haldist áfram undir verðbólgumarkmiði Seðlabankans á þriðja ársfjórðungi en fari svo hratt hækkandi á haustmánuðum og verði komin í 3,3 prósent í nóvember.