Bjarni Benediktsson, fjármálaráðherra, segir að Seðlabankinn verði að hafa í huga vaxtastigið í nágrannalöndum okkar þegar kemur að ákvörðun vaxta bankans. Greiningardeildirnar spá því að peningastefnunefnd Seðlabankans muni hækka vexti á miðvikudag. Þetta er meðal þess sem kemur fram í frétt Bloomberg um mögulega vaxtahækkun Seðlabankans á miðvikudag.
Í júní voru vextir bankans hækkaðir um 0,5 prósentur en fjórir nefndarmenn greiddu atkvæði með tillögu seðlabankastjórans um þessa hækkun. Einn þeirra hefði þó heldur kosið að hækka vexti um 0,75 prósentur en taldi sig engu að síður geta fallist á tillögu seðlabankastjóra. Einn nefndarmaður greiddi atkvæði gegn tillögu bankastjóra og vildi hækka vexti um 1 prósentu.
Bjarni segir að við megum ekki gleyma vaxtarmunaviðskiptunum sem áttu sér stað hér á landi fyrir hrun.
Vaxtamunarviðskipti, sem nefnd eru carry trade á ensku, felast í því að lán eru tekin í ríkjum þar sem vextir eru lágir, og féð ávaxtað á mörkuðum þar sem vextir eru háir. Þegar íslenska bankakerfið hrundi áttu erlendir fjárfestar nærri 500 milljarða króna í skuldabréfum sem lokuðust inni vegna gjaldeyrishaftanna.
Hann segir að ríkisstjórnin sé að leita leiða um hvernig megi halda vöxtum lágum hér, meðal annars með samkomulagi milli aðila vinnumarkaðarins og ríkisstjórnarinnar.