Bjarni Benediktsson ætlar að leggja frumvarpsdrög um skattagrið fyrir efnahags- og viðskiptanefnd í haust og athuga hvort hægt verði að ná samstöðu um efnið. Drögin gera ráð fyrir að skattsvikarar geti komið fram með vantaldar tekjur eða eignir erlendis gegn því að fallið verði frá refsimeðferð.
Starfshópur um gerð griðareglna skilaði frumvarpsdrögum til fjármála- og efnahagsráðherra í mars. Til stóð að kynna málið í ríkisstjórn við fyrsta tækifæri þar sem reglurnar gerðu ráð fyrir að menn gætu stigið fram með eignirnar fyrir 30. júní sl.
Bjarni segir málið hafa fallið í grýttan jarðveg á þingi. „Málið er þeirrar gerðar að ef ekki er um það samstaða að fara þessa leið ætla ég ekki að fara eyða mikilli orku í að berjast fyrir því að það verði samþykkt,“ segir hann.
Því stefnir hann á að leggja skýrslu starfshópsins í hendur efnahags- og viðskiptanefndar sem verður falið að skoða hana ofan í kjölinn.
„Mér fannst öll áherslan í þinginu vera á það að með því að fara þessi leið væri verið að veita mönnum einhvers konar afslátt af því að hafa brotið lög,“ segir Bjarni aðspurður um mótstöðuna sem frumvarpsdrögin mættu.
„Staðreyndin er hins vegar sú að menn munu aldrei geta upplýst um öll brot. Þarna er farin sú leið að skapa hvata fyrir menn að gera hreint fyrir sínum dyrum,“ segir Bjarni og vísar til þess að aðferðin hafi leitt til stóraukinnar skattheimtu í nágrannaríkjum.
Lög um einhvers konar skattagrið hafa t.d. verið samþykkt í Danmörku, Svíþjóð, Noregi, Finnlandi, Bretlandi, Frakklandi og Þýskalandi.
Aðspurður hvort hann hafi orðið var við utanaðkomandi áhuga á þessari leið segist hann ekkert hafa heyrt um það. Þá getur hann ekki heldur sagt til hvort skattagögnin sem embætti skattrannsóknarstjóra keypti í sumar gætu orðið grundvöllur að meðferð mála samkvæmt þessum reglum.
Rétt er þó að taka fram að frumvarpsdrögin gera ráð fyrir að ekki sé hægt að nýta sér heimildina ef skatt- eða lögregluyfirvöld hafa þegar hafið eftirlitsaðgerðir eða skattrannsókn sem beinist að eignum eða tekjum erlendis.
Samkvæmt drögunum verður lagt álag á vantaldan skattstofn og endurákvarðaða gjaldið þarf að greiða innan tíu daga eftir dagsetningu ákvörðunar. Vanræksla myndi leiða til refsimeðferðar.
Álagsprósentan er ekki ákveðin en í dæmaskyni er miðað við að álagið á vanframtöldu tekjurnar verði 35%. Samkvæmt gildandi rétti er beitt 25% álagi á endurákvarðaðar tekjur. Ávinningur skattaðilans er að honum yrði hvorki gerð refsing né þyrfti hann að greiða sektir.
Líkt og fram hefur komið er skattrannsóknarstjóri í óðaönn að fara í gegnum aðkeypt gögn um eignir Íslendinga í skattaskjólum. Þrjátíu milljónir króna voru greiddar fyrir gögnin sem tengjast 400 til 500 félögum erlendis. Á bak við hvert félag er oft á tíðum fleiri en einn skattskyldur aðili á Íslandi.
Skattrannsóknarstjóri hefur reynt að hafa hraðar hendur þar sem möguleg hætta er á að einhver mál fyrnist. Mismunandi er hvenær skattamál fyrnast, en venjulega er miðað við 6 ár varðandi endurákvörðun, en lengri tíma með refsimál.