Gengishækkun ein helsta hættan

Ásgeir Jónsson, dósent í hagfræði við Háskóla Íslands.
Ásgeir Jónsson, dósent í hagfræði við Háskóla Íslands. mbl.is/Ómar

Ásgeir Jónsson, dósent í hagfræði við Háskóla Íslands, segir að aðstæður í heimshagkerfinu haldi að einhverju leyti aftur af verðbólgu. Flest vestræn ríki hafi nú áhyggjur af verðhjöðnun, ekki verðbólgu, en verð á hrávörum, þá sérstaklega olíu, hefur farið hratt lækkandi í kjölfar þess að eftirspurn frá nýmarkaðslöndum hefur dregist saman.

Helstu áhyggjur margra þessara ríkja snúa að of mikilli gengishækkun gjaldmiðla sinna.

Ásgeir segir að á síðustu eitt til tveimur árum hafi átt sér stað mikil umskipti á íslenskum gjaldeyrismarkaði. Í stað þess að fjármagn streymdi út í gegnum höftin og Seðlabankinn þyrfti að selja gjaldeyri til þess að halda krónunni stöðugri, streymi nú fjármagn inn í höftin, bæði vegna viðskiptaafgangs sem og vaxandi áhuga útlendinga á að fjárfesta hérlendis.

Þannig hafi Seðlabankinn keypt fyrir 136 milljarða af gjaldeyri á þessu ári sem hefur samt ekki nægt til þess að koma í veg fyrir styrkingu krónunnar. Að mati Ásgeirs fer ein helsta hættan við afnám hafta að verða gengishækkun krónunnar sem gerir landið ósamkeppnishæft.

Fyrirbyggjandi aðgerð Seðlabankans

Ásgeir segir að peningastefnunefnd Seðlabanka Íslands hafi ákveðið að bregðast við kjarasamningum sem náðust á vinnumarkaði fyrr á árinu með því að hækka vexti um hundrað punkta. Hún hafi álitið það fyrirbyggjandi aðgerð. Frekari vaxtahækkanir muni síðan velta á framvindunni nú í haust. Enn sem komið sé verðbólga lág og raunvaxtastigið því mjög hátt.

Verðbólguspá Seðlabankans byggi á því að launahækkanir séu meiri heldur en samrýmist framleiðni. Hækkanirnar séu meiri en í ríkjunum í kringum okkur og sé spurningin aðeins sú hversu mikið svigrúm sé til staðar til að taka á móti þeim.

Hann bendir á að fyrirtæki hafi að einhverju leyti brugðist við nýjum kjarasamningum með því að auka framleiðni og flytja inn erlent vinnuafl. „Við erum á þeim stað í hagkerfinu að það er varla meira vinnuafl til staðar. Það er ekki frekari vöxtur mögulegur í ferðaþjónustunni nema við flytjum inn erlent vinnuafl. Og það gæti að einhverju leyti hafa haldið aftur af launaskriði sem gjarnan hafa fylgt uppsveiflum hérlendis,“ segir Ásgeir.

mbl.is/Kristinn
mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Loka