Neytendasamtökin gerðu markaðskönnun á sjónvörpum í lok júlímánaðar í tólf verslunum hér á landi. Neytendasamtökin hafa jafnframt skoðað upplýsingar á síðu dönsku neytendasamtakanna og borið saman við verð í Danmörku á 59 mismunandi sjónvarpstækjum. Þetta segir á heimasíðu samtakanna. Samtökin segja ekki hægt að afsaka þetta með opinberum álögum, því þær séu hærri í Danmörku en á Íslandi.
Þó nokkuð sé um að verslanir hér á landi séu með sjónvörp á tilboðsverði en í þessum samanburði er borið saman svokallað venjulegt verð (fyrra verð) við verð sem fram kemur á heimasíðu dönsku neytendasamtakanna.
Í þessum samanburði er miðað við sölugengi Seðlabankans á dönsku krónunni þann 18. ágúst sl. en þá kostaði danska krónan 19,7 kr.
Oft munar miklu á verði samkvæmt töflunni í pdf-skjalinu hér neðst í fréttinni og í einu tilviki er sama sjónvarpið selt á tæplega 103% hærra verði hér en í Danmörku.
Sá mikli verðmunur sem fram kemur í allt of mörgum tilvikum er ekki hægt að afsaka með opinberum álögum. Hér er lagður á 7,5% tollur á sjónvarpstæki en 14% í Danmörku. Virðisaukaskattur hér er 24% á sjónvarpstæki en 25% í Danmörku. Opinberar álögur á sjónvarpstækjum eru þannig lægri hér en í Danmörku.