Tvöfalda veitingastað IKEA

Veitingastaður IKEA á Íslandi er langvinsælastur.
Veitingastaður IKEA á Íslandi er langvinsælastur. Þórður Arnar Þórðarson

Veitingastaður IKEA á Íslandi er langvinsælasti IKEA veitingastaður í heimi. Nú er svo komið að vinsældirnar eru nánast of miklar og því er verið að tvöfalda staðinn.  Það verður hrein viðbót við matsalinn en maturinn á nýja svæðinu verður í fínni kantinum og andrúmsloftið verður afslappaðra.

Þórarinn Ævarsson, framkvæmdastjóri IKEA, segir fjárfestinguna nema um sex hundruð milljónum króna. 

Líkt og áður segir verður veitingastaðurinn tvöfaldaður en sætum verður fjölgað úr 250 í 500. Þórarinn segir eldri hluta staðarins verða óbreyttan, þar sem áfram verður hægt að fá sér klassísku kjötbollurnar, en notalegri stemning verður í nýja hlutanum.

„Í dag eru þarna mikil læti og örtröð en á nýja staðnum á að vera hægt að setjast niður í sófa og spjalla. Þarna verða kannski einhver blóm, sjónvarp og blaðarekkar,“ segir Þórarinn. „Maturinn verður í betri gæðum. Kökurnar verða aðeins betri og kaffið betra,“ segir hann.

„Þetta verður áfram IKEA en minni mötuneytisstemning,“ segir hann og bætir þó við að áhugasamir megi ennþá fara með kjötbollurnar sínar yfir á nýja svæðið.

Smíða milliloft

Ekki er byggt við IKEA verslunina fyrir veitingastaðinn heldur er lofhæðin fyrir ofan afgreiðslukassana nýtt. Smíðað verður 1.200 fermetra milliloft sem mun hýsa nýja svæðið.

Samfara þessu verður bakvinnslan stækkuð. „Þegar við opnuðum staðinn fyrir níu árum síðan voru vinsældirnar ekki fyrirséðar,“ segir Þórarinn.

Aðspurður hvort veitingastaðurinn njóti sérlegra vinsælda á Íslandi segir hann Íslendinga sprengja alla skala líkt og oft áður. „Veitingastaðurinn hérna er langsamlega vinsælastur,“ segir hann og bætir við að vinsældirnar séu t.d. fjórfaldar á við í Danmörku.

Þórarinn segir vinsældirnar hins vegar ekki vera neina tilviljun þar sem mikil áhersla hefur verið lögð á veitingastaðinn frá upphafi. „Við erum með mesta úrvalið og lægsta verðið,“ segir hann og vísar jafnframt til þess að áhersla hafi verið lögð á barnafjölskyldur eftir hrunið þar sem börnin fengu frítt að borða.

Stefnt er að því að opna veitingastaðinn um miðjan eða seinnipart októbermánaðar og ná að minnsta kosti jólatraffíkinni.

Bíða svara með IKEA á Akureyri

IKEA hefur áður viðrað hugmyndir um litla verslun á Akureyri með vinsælustu vörunum en verslunin yrði líklega ekki meira en fimm þúsund fermetrar að stærð. Aðspurður um gang mála segir Þórarinn að IKEA erlendis sé ennþá að útfæra hvernig eigi að hafa svona litlar búðir. 

Hann segir IKEA vera með tilraunastarfsemi í gangi en þangað til er í rauninni lítið hægt að segja. „Það er mikill áhugi fyrir hendi en við þurfum að bíða ákvörðunar frá þeim,“ segir Þórarinn.

Líkt og mbl greindi frá í morgun hefur IKEA á Íslandi ákveðið að lækka vöru­verð í versl­un sinni um 2,8%. Þrjár megin­á­stæður liggja til grund­vall­ar ákvörðun­inni.

Í fyrsta lagi hafi gengi ís­lensku krón­unn­ar gagn­vart evru styrkst tölu­vert og það geri inn­flutn­ing til lands­ins í flest­um til­vik­um hag­stæðari. Í öðru lagi hafi kjara­samn­ing­ar sem und­ir­ritaðir voru fyrr á ár­inu reynst skap­legri en stefndi í á tíma og í þriðja lagi hafi velta í tengsl­um við auk­inn ferðamanna­straum styrkt flesta þætti versl­un­ar í land­inu langt um­fram það sem menn hefðu getað gert sér í hug­ar­lund.

Nýi matsalurinn veðrur hrein viðbót við þann eldri.
Nýi matsalurinn veðrur hrein viðbót við þann eldri. Eggert Jóhannesson
Fjárfestingin nemur 600 milljónum króna.
Fjárfestingin nemur 600 milljónum króna. Gísli Sigurðsson
mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK