Hagnaður Íslandssjóða eftir skatta á fyrstu sex mánuðum ársins jókst um 452 prósent milli ára og nam 138 milljónum króna samanborið við 25 milljónir á sama tíma í fyrra.
Rekstrargjöld lækkuðu um 3,5 prósent milli ára og námu 556 milljónum króna samanborið við 576 milljónir króna fyrir sama tímabil árið áður.
Hreinar rekstrartekjur jukust um 19,9 prósent og námu 728 milljónum króna samanborið við 607 milljónir fyrir sama tímabil árið áður.
Eigið fé dróst lítillega saman en hinn 30. júní sl. nam eigið fé 2.001 milljón króna en var 2.035 milljónir í ársbyrjun.
Heildareignir félagsins stóðu nánast í stað, en þær námu 2.569 milljónum króna í lok júní en voru 2.600 milljónir króna í árslok 2014.
Eiginfjárhlutfall félagsins, sem reiknað er samkvæmt lögum um fjármálafyrirtæki, var 57 prósent í lok júní, en þetta hlutfall má ekki vera lægra en átta prósent.
Í lok júní 2015 voru 23 sjóðir í rekstri hjá félaginu og nam hrein eign þeirra 122.527 milljónum króna samanborið við 114.130 milljónir króna í lok árs 2014.
Þar af eru 12 verðbréfasjóðir með hreina eign að upphæð 86.651 milljónir króna og 11 fjárfestingarsjóðir með hreina eign að upphæð 35.876 milljónir króna.
Fjárfestingarsjóðurinn Einkasöfn ÍS var stofnaður í upphafi árs 2015 en sjóðurinn starfar í fimm sjóðsdeildum (A-E). Sjóðirnir eru blandaðir og fjárfesta bæði í öðrum sjóðum og stökum verðbréfum.
Á fyrri hluta ársins störfuðu að meðaltali 13,3 starfsmenn hjá Íslandssjóðum.