Lemon til Frakklands og Bretlands

Jón Arnar Guðbrandsson og Jón Gunnar Geirdal, eigendur Lemon.
Jón Arnar Guðbrandsson og Jón Gunnar Geirdal, eigendur Lemon. Golli / Kjartan Þorbjörnsson

Samloku- og djússtaðurinn Lemon verður opnaður í París eftir áramót og þreifingar í Bretlandi standa nú yfir auk þess sem nýr staður verður opnaður í Keflavík í september. Allir framangreindir veitingastaðir verða reknir á grundvelli sérleyfissamninga og eigandi stefnir að frekari útrás.

Jón Arnar Guðbrandsson, sem á Lemon ásamt Jóni Gunnari Geirdal, segir þá félaga ætla að einbeita sér að uppbyggingu fyrirtækisins á höfuðborgarsvæðinu, þar sem þeir reka þrjá staði: Á Suðurlandsbraut, Laugavegi og í Hjallahrauni í Hafnafirði.

Til þess að geta staðið að frekari stækkun fyrirtækisins á sama tíma hyggjast þeir gera samninga við trausta aðila sem þekkja viðkomandi svæði. Fyrsti sérleyfisstaðurinn verður líkt og áður segir opnaður í Keflavík í september en rekstraraðilinn hefur tryggt sér sérleyfi fyrir allt Reykjanessvæðið. Jón Arnar segir að einnig sé horft til Akureyrar og Selfoss. „Á Suðurnesjum er lítið lítið úrval af hollum skyndibita og ég held að við munum eiga farsælan feril þar,“ segir hann.

Einn staður í einu

Jón Arnar segist hafa unnið hægum skrefum að útrás erlendis og bætir við að hann hafi fundið fyrir miklum áhuga. 

Fyrsti Lemon staðurinn erlendis opnar líklega í París á fyrsta eða öðrum ársfjórðungi á næsta ári en íslensk feðgin hafa þegar stofnað félag um reksturinn í París. „Menn hafa ekki verið að horfa mikið á franska markaðinn á liðnum árum. Menningin þar er hins vegar að breytast úr því að Frakkar séu bara að keyra áfram sína frönsku matargerð,“ segir Jón Arnar og bendir á að Pret A Manger, sem er stærsti samlokaður Bretlands, sé kominn inn á markaðinn þar sem nýr staður sé nánast opnaður í hverri einustu viku.

Jón Arnar segir að verið sé að skoða þrjár staðsetningar í París. „Við teljum best að opna einn stað og sjá hvernig honum vegnar fyrstu sex til tíu mánuðina og taka síðan næstu skref í samræmi við það,“ segir hann.

Norðurlönd á næstu 2-3 árum

Eins hefur verið mikill áhugi fyrir að opna stað í Bretlandi og Jón Arnar segist hafa átt í samræðum við bæði íslenska og erlenda rekstraraðila en vonir standa til þess að hægt verði að ganga frá samningum fyrir lok ársins. „Ef bæði Bretland og Frakkland klárast fyrir áramót ætlum við ekki að skoða fleiri markaði í bili. Þetta verða risavaxin verkefni og við þurfum að passa okkur að gera þetta vel,“ segir hann.

Aðspurður um Skandinavíu segir Jón Arnar horfa til Norðurlandanna á næstu tveimur til þremur árum.

Ekki flókið að opna Lemon stað

„Það er auðvelt að opna nýja Lemon staði þar sem við þurfum til dæmis ekki að vera með stór loftræstikerfi og þurfum hvorki mjög flókna leigusamninga né flókin leyfi,“ segir Jón Arnar. „Um leið og þú ert kominn í stórborg og þarft að vera með stóra háfa og mikla eldum verður bæði dýrt og flókið að opna nýja staði,“ segir hann og bendir á að Lemon sé byggður þannig upp að birgjar elda vöruna eftir þeirra uppskriftum en maturinn er settur saman á staðnum. 

„Ef vel er haldið utan um það sem við erum að gera gæti þetta klárlega verið eitthvað sem væri hægt að sjá alls staðar í heiminum í framtíðinni,“ segir Jón Arnar aðspurður hvort útrásinni séu einhver takmörk sett. „En það þarf að passa sig á að taka eitt skref í einu,“ segir hann.

Óttast ekki samkeppni

Aðspurður um mögulega samkeppni frá öðrum samlokustöðum, líkt og Joe & the Juice, sem hefur náð fótfestu á Norðurlöndum, segist hann ekki óttast hana. „Það eru fjölmargar keðjur sem eru að selja samlokur og kaffi í þessum löndum,“ segir hann og bendir á Pret A Manger og Starbucks sem dæmi. „Ef eitthvað er, að þá myndum við líklega styrkja hvorn annan,“ segir hann og vísar til þess að viðskiptin á Lemon hafi aukist eftir að fyrrnefndur samlokustaður kom til Íslands.

„Ég myndi kannski ekki segja að Danmörk væri fyrsti markaðurinn til að sækja inn á,“ segir hann og vísar til þess að Joe & the Juice reki á þriðja tug veitingastaða. „Hins vegar tel ég aðra markaði vera galopna,“ segir Jón Arnar.

Lemon á Laugavegi.
Lemon á Laugavegi. mbl.is/Júlíus Sigurjónsson
Jón Arnar bendir á að Pret A Manger, sem er …
Jón Arnar bendir á að Pret A Manger, sem er vinsæll breskur samlokustaður, hafi gengið vel í Frakklandi.
mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK