Ágætlega hefur viðrað á hlutabréfamarkaðurinn í sumar þrátt fyrir að sumarmánuðirnir séu oft tími lítilla hreyfinga. Frá miðjum maí hefur Úrvalsvísitalan hækkað um ellefu prósent.
Í Hagsjá Landsbankans kemur fram að flest félögin á íslenska hlutabréfamarkaðnum hafi hækkað í verði frá ársbyrjun 2015 en aðeins Hagar og TM hafa lækkað á árinu.
N1, Marel, Össur og Icelandair eru þau félög sem hafa hækkað mest frá ársbyrjun en ástæður hækkana hjá félögunum má fyrst og fremst finna í góðum uppgjörum á fjórða ársfjórðungi 2014 og fyrsta ársfjórðungi 2015. Að sama skapi hefur orðið lækkun á verði félaga sem birtu uppgjör undir væntingum á sama tíma.
Það sem af er ári hefur virði félaga á aðallista kauphallarinnar hækkað úr 588 milljörðum króna í 795 milljarða. Þar af er 76,5 milljarða hækkun vegna skráningu nýrra félaga á markað, en það eru Eik og Reitir. Á sama tíma hafa verið greiddir 24,3 milljarðar króna í arðgreiðslur á árinu.
Össur er langstærsta fyrirtækið á markaði, með 220 milljarða króna markaðsvirði, en þar á eftir koma Marel, með 142 milljarða króna markaðsvirði og Icelandair, með 131 milljarðs króna virði. Markaðsvirði skráðra félaga nemur nú um fjörtíu prósent af landsframleiðslu.
Ólík þróun hefur verið á hlutabréfamarkaðnum hérlendis en á hinum Norðurlöndunum frá áramótum.
Frá áramótum og fram í lok apríl varð ekki mikil hækkun á innlendum hlutabréfamarkaði samanborið við þá norrænu, OMXI8GI úrvalsvísitalan, sem tekur tillit til arðgreiðslna, hækkaði um níu prósent á sama tíma og norræna vísitalan OMX Nordic 40 GI, sem einnig tekur tillit til arðgreiðslna, hækkaði um rúmlega tuttugu prósent.
Í maí fór dæmið að snúast við og um miðjan ágúst hafði OMXI8GI hækkað um 23 prósent á árinu og OMX Nordic 40GI um nítján prósent. Mun minni hækkanir hafa verið þegar litið er á heimsvísitöluna, en hún hefur einungis hækkað um 1,5 prósent árið 2015 og lækkað um 3,2 prósent frá miðjum maí.
Sumarið hefur þá ekki verið jafn gott fyrir erlenda markaði. Undanfarna þrjá mánuði er það íslenska úrvalsvísitalan sem hefur hækkað mest, um ellefu prósent, og aðeins hefur verið hækkun á fjórum öðrum mörkuðum, en þær hækkanir hafa verið á bilinu tvö til fjögur prósent.
Hins vegar verður að taka tillit til þess að úrvalsvísitölur eru oft samsettar úr fáum fyrirtækjum og hækkun fárra fyrirtækja því gefið villandi mynd af þróun alls markaðarins.
Í tilfelli Danmerkur, þar sem heilsugeirinn vegur yfir fimmtíu prósent í vísitölunni, hefur t.a.m. eitt líftæknifyrirtæki sem framleiðir krabbameinslyf hækkað um rúmlega 170 prósent undanfarna tólf mánuði. Svipaða sögu má segja um íslensku úrvalsvísitöluna. Icelandair og Marel t.d. vega um 53 prósent í vísitölunni en þessi félög hafa sýnt bæði góðan vöxt og afkomubata á árinu.