Aðstæðurnar við bankahrunið á Íslandi voru sérstakar þar sem í grunninn var um að ræða eitt risastórt pýramídasvindl. Þetta hefur American Banker eftir Guðrúnu Johnsen í grein um eftirmál bankahrunsins á Íslandi.
Í greininni er vísað til þess að margir Bandaríkjamenn hafi bent á að þarlend stjórnvöld hefðu átt að fara sömu leið og þau íslensku - leyfa bönkunum að fara í þrot og refsa ábyrgum. „Við nánari skoðun er samanburðurinn hins vegar ekki einfaldur,“ skrifar blaðamaður American Banker, sem m.a. ræðir við Guðrúnu, sem er lektor í fjármálahagfræði við HÍ og starfaði með Rannsóknarnefnd Alþingis við rannsókn á falli bankanna. Einnig er rætt við Eyvind G. Gunnarsson, forseta lagadeildar HÍ.
Guðrún bendir á að bankakerfið hafi í raun fallið saman á um þremur dögum og að fall stóru viðskiptabankanna þriggja hafi haft áhrif á alla landsmenn.
Eyvindur vísar til þess að íslensk stjórnvöld hafi í raun ekki átt annarra kosta völ vegna gífurlegrar stærðar bankakerfisins en líkt og fram hefur komið námu heildareignir bankanna um nífaldri landsframleiðslu Íslands í lok ársins 2007.
Þá hafi almenningur kallað eftir því að bankamenn yrðu dregnir fyrir dóm. „Þegar kreppan skall á í október 2008 gekk þjóðin hálfpartinn af göflunum,“ er haft eftir Eyvindi. „Vegna þessa andrúmslofts hikuðu stjórnmálamenn ekki við að gera eitthvað í þessu.“
Guðrún bendir á að sérstakur saksóknari hafi þá verið skipaður sem fékk aðgang að bókhaldi bankanna. Hún segir meginmuninn milli bankarannsókna í Bandaríkjunum og á Íslandi hafa falist í því. Saksóknari fékk þennan víðtæka aðgang og pólitíkusar höfðu ekki nein áhrif á rannsóknina.
Þá vísar Eyvindur til þess að bankarnir hafi þegar verið komnir í slitameðferð og því hafi ekki verið neinn hvati til þess að láta þá líta betur út en þeir gerðu.