Hótelið sem mun rísa við Bláa lónið verður fyrsta fimm stjörnu hótel landsins, en ekki Marriott Edition hótelið sem verður opnað við hlið Hörpu árið 2019.
Í frétt mbl og annarra fjölmiðla um nýja hótelið sagði að Marriott Edition yrði það fyrsta, en það er hins vegar ekki rétt, þar sem stefnt er opnun Bláa lóns hótelsins vorið 2017.
Hótelið við Bláa lónið verður því opnað um tveimur árum fyrr.
Mbl hefur áður fjallað um hótelið sem verður með 74 herbergjum ásamt nýjum veitingastað, umlukið bláu lóni. Þá er einnig verið að stækka lónið sjálft um helming auk þess sem núverandi upplifunarsvæði verður endurhannað. Ný aðstaða fyrir spa-meðferðir sem boðnar verða ofan í lóninu verða á nýja svæðinu.
Heildarstærð verkefnisins er 7.500 fermetrar.
Í frétt á vefsíðu Grindavíkurbæjar segir að framkvæmdir séu komnar á fullt í hrauninu vestan megin við lónið.