Þurfa að rýma eftir mánuð

Eigendur Skyrtu héldu í upprunalegar innréttingar frá árinu 1947.
Eigendur Skyrtu héldu í upprunalegar innréttingar frá árinu 1947. Mynd af vefsíðu Skyrtu.is

Eftir að hafa staðið í löngum viðræðum við eiganda Skólavörðustígs 21 eru eigendur fataverslunarinnar Skyrtu komnir með lokasvar. Þeir þurfa að rýma húsnæði gömlu Fatabúðarinnar fyrir lok september. 

Leslie Dcunha, einn eigenda Skyrtu, segir þá ekki hafa fundið nýtt húsnæði fyrir verslunina og bætir við að þeir geti ekki sætt sig við hvað sem er eftir að hafa byrjað reksturinn í svo fallegu húsnæði og þróað ákveðna ímynd þar.

Innréttingarnar í versluninni eru frá árinu 1947 en þegar eigendur Skyrtu tóku við húsnæðinu í fyrra vörðu þeir um mánuði í að pússa innréttingarnar upp og laga.

Gagnrýnir ógagnsæi

Leslie gagnrýnir ógagnsæi í málinu öllu þar sem samskipti hafa að miklu leyti farið fram í gegnum lögfræðinga eigandans, Sonju Lampa, sem jafnframt er eigandi veitingastaðarins Krua Thai. Þá hafi svörin verið óskýr og ekki liggur fyrir hvaða rekstur tekur við á eftir Skyrtu. Hann segir eigendur hafa boðist til þess að borga hærri leigu en fátt var um svör.

Útrás á næsta leyti

Leslie segir að verslunin verði mögulega heimilislaus fyrst um sinn þar sem áhersla verður lögð á netsölu. Sá þáttur hefur farið hratt vaxandi og er útrás á næsta leyti.

Í nóvember verður hönnun Skyrtu seld í netversluninni ASOS.com, á Amazon.com, Flipcart.com og í Boxpark í London á svipuðum tíma. Samhliða þessu ætla þeir að koma upp vöruhúsi í Evrópu til að lækka sendingarkostnað. 

Aðspurður segir Leslie að um sjötíu prósent viðskiptavinanna sem koma í búðina séu Íslendingar og eru flestir séu á aldrinum 25 til 45 ára. Í netsölunni er hins vegar meirihlutinn seldur til útlanda en Skyrta sendir í dag til fimmtán landa. 

Líkt og mbl hefur áður greint frá verður veit­ingastaður­inn Krua Thai verður lík­lega ekki í hús­næðinu, líkt og upphaflega stóð til, held­ur í hús­næði hönn­un­ar­versl­un­ar­inn­ar Insulu.

Sonja Lampa keypti Skóla­vörðustíg 21 á síðasta ári og síðan hafa staðið yfir viðræður milli Minja­stofn­un­ar og eig­anda um vernd­un fyrrnefndra inn­rétt­ing­a.

Fata­búðin var opnuð í hús­inu árið 1927 þegar stofnað var úti­bú á Skóla­vörðustíg, en höfuðstöðvar versl­un­ar­inn­ar voru þá í Hafn­ar­stræti 16. Til skamms tíma var versl­un­in því rek­in á báðum stöðum.

Fyrsta hæð húss­ins að Skóla­vörðustíg 21a var byggð árið 1927 en ofan á húsið var byggt árið 1936. Það var Guðríður Árna­dótt­ir Bramm sem lét byggja húsið en hún stofnaði Fata­búðina og var hún rek­in í fjöl­skyldu henn­ar allt til 1955. Guðríður var þar að auki þekkt at­hafna­kona og hafði áður rekið versl­un á Ísaf­irði og lét meðal ann­ars byggja stór­hýsið Fell þar í bæ sem brann í stór­um elds­voða á fimmta ára­tugn­um.

Skólavörðustígur 21
Skólavörðustígur 21 Þórður Arnar Þórðarson
mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK