Verulegur afgangur verður af rekstri hins opinbera á næstu árum samkvæmt spám vegna efnahagslegrar uppsveiflu. Vatnaskil hafa orðið í opinberum fjármálum eftir sex ára aðhaldstímabil. Þetta kemur fram á vef Viðskiptaráðs Íslands. Þannig geri hagspá Seðlabankans ráð fyrir að um 100 milljarða króna afgangur verði af rekstri ríkissjóðs árið 2017. Eitt stærsta verkefni stjórnmálanna næstu árin verði viðbrögðin við þessari breyttu stöðu.
„Þrír valkostir standa Íslendingum til boða. Hægt er að greiða niður opinberar skuldir, lækka skatta á einstaklinga og/eða fyrirtæki eða auka opinber útgjöld. Sú leið sem stjórnvöld velja mun ráða miklu um þróun rekstrarumhverfis fyrirtækja og lífskjara almennings á næstu árum. Þau fjárlög sem lögð verða fram í haust munu veita mikilvæga vísbendingu um framhaldið,“ segir ennfremur. Verði afgangur af opinberum rekstri telur Viðskiptaráð farsælast að verja honum til lækkunar opinberra skulda og skynsamlegra skattalækkana. Með því verði hægt að auka kaupmátt og bæta vaxtakjör ríkissjóðs verulega á komandi árum og þar með spara verulega fjármuni sem í dag fari í greiðslu vaxta af lánaskuldbindingum ríkisins.
„Frekari útgjaldaaukning er hins vegar til þess fallin að auka þenslu á sama tíma og óskilvirkri og jafnvel óþarfri opinberri starfsemi er áfram haldið úti,“ segir ennfremur. Þessi í stað væri skynsamlegra að miða að bættri opinberri þjónustu fyrir sömu fjármuni. Því markmiði megi ná með aukinni framleiðni og forgangsröðun. Lækkun tveggja skatta ætti að vera í forgangi. Annars vegar tryggingagjaldsins og hins vegar fjármagnstekjuskattsins. Lækkun tryggingagjaldsins myndi vega upp á móti neikvæðum áhrifum nýgerðra kjarasamninga. Leiða til bætts rekstrarumhverfis fyrirtækja og aukins kaupmáttar almennings. Lækkun fjármagnstekjuskattsins myndi hins vegar leiða til meiri sparnaðar.