Nýtt kökuhús með vísan í Laxness

Auður Ögn Árnadóttir opnar Sautján sortir í september á Grandagarði.
Auður Ögn Árnadóttir opnar Sautján sortir í september á Grandagarði. Eggert Jóhannesson

Í byrjun september mun ný kökubúð, eða réttara sagt kökusjoppa, opna á Grandagarði og þar bætast við ört stækkandi hóp matvöru- og veitingastaða sem spretta upp í og í kringum gömlu verbúðirnar. Daglega verður boðið upp á 17 mismunandi tegundir af kökum, en úrvalið mun breytast frá degi til dags. Samkvæmt eigandanum, Auði Ögn Árnadóttur, verður lagt upp með heimilislegar kökur og segir hún að þetta gæti orðið skemmtileg viðbót við hefðbundinn ísrúnt og bætt það úrval sem fólki stendur til boða.

„Of gott tækifæri til að sleppa því“

Fyrir rekur Auður kennslueldhúsið Salt eldhús, en hún segir að nýja kökuhúsið sé hugmynd sem hafi undið upp á sig og sé nú að verða að fullmótuðu verkefni sem fari að opna fyrir viðskiptavinum. „Við fengum lóðina úthlutaða í vor, en þar á undan var þetta ekki löng fæðing,“ segir hún í samtali við mbl.is. Auður segist hafa sent inn umsókn um lóðina í vor þegar Faxaflóahafnir óskuðu eftir umsóknum í verbúðirnar á Grandagarði. „Ég hélt að ég fengi þetta aldrei,“ segir hún og bætir við að með Salt eldhús í fullum rekstri hafi hún varla mátt við þessu. „En þetta var of gott tækifæri til að sleppa því,“ segir Auður og hlær.

17 mismunandi kökur á hverjum degi

Kökuhúsið mun bera nafnið Sautján sortir, en Auður segir hugmyndina koma úr sögunni Kristinhald undir jökli eftir Halldór Laxness. Vísar það einnig til þess að í boði verða 17 kökur á hverjum degi, en Auður segir að samsetningin verði aldrei sú sama og þannig geti fólk aldrei gengið að því að fá sínar uppáhaldskökur, en á móti sé alltaf um eitthvað spennandi að velja. Þá verði á hverjum degi í boði kökur fyrir þá sem eru vegan eða eru með eggja- og mjólkurofnæmi, auk þess sem fólk sem vilji sleppa hvítum sykri eða glúteni eigi að finna eitthvað við sitt hæfi. Þá mun viðskiptavinum einnig bjóðast að koma með óskir um kökur á Facebook síðu verslunarinnar og segir Auður að reynt verði að taka vel í allar hugmyndir.

Aðspurð hvort eitthvað fleira verði á boðstólnum en kökur segir Auður að hluti af hugmyndinni sé einmitt að hafa bara kökur. Það verði ekkert um annað brauðmeti í versluninni. Þetta eigi að vera eins og sjoppa eða ísbúð þar sem fólk geti komið langt fram á kvöld eða í hádeginu og fengið sér ljúffengar veitingar í lítið box til að gæða sér á, hvort sem um er að ræða Hnallþórur, bollakökur eða venjulegar kökur.

Áhersla á heimabakstur

Þrátt fyrir að verkefnið hafi raungerst nokkuð snöggt segir Auður að hún hafi gengið með þessa hugmynd í langan tíma og verið búin að hugsa framkvæmdina nánast niður í tegundir af kökum og önnur smáatriði áður en hún sótti um á sínum tíma. „Við ætlum að stíla inn á heimabakstur og vera t.d. með ekta sítrónur, smjör og rjóma í öllum kökunum,“ segir Auður.

Það er bakarameistarinn Íris Björk Óskarsdóttir sem mun sjá um kökubaksturinn, en hún er nýútskrifaður bakari og segir Auður að hún hafi meðal annars fengið verðlaun fyrir köku ársins þegar hún var enn nemi.

Áfangastaður fyrir gæðaframleiðslu

Mikill uppgangur hefur verið á þessu svæði á Grandanum í veitinga- og matgæðingageiranum að undanförnu. Auður segir að þegar hún sótti um lóðina á sínum tíma hafi hún ekki séð fyrir þann mikla styrkleika sem fyrirtæki í svipuðum geira hafi af hvor öðru. „Þetta er að verða að áfangastað fyrir þá sem eru að leita að gæðaframleiðslu,“ segir hún. Fyrir á svæðinu eru t.d. Ísbúðin Valdís, veitingastaðurinn Matur og drykkur og þá sagði mbl.is frá því á miðvikudaginn að sælkerakjötbúð hefði opnað í síðustu viku á svæðinu. Margir fleiri staðir hafa verið að dragast að svæðinu síðustu misseri og virðist ekkert hægjast á vinsældum hverfisins.

Þrátt fyrir nálægðina við miðbæinn, þar sem flestir ferðamenn eru, þá segir Auður að hún ætli fyrst og fremst að höfða til Íslendinga. „Ég ætla ekki að stíla inn á ferðamenn, en ef þeim líkar þetta þá er það bara góð viðbót,“ segir hún. Auður segist hafa mestar vonir til þess að aukin fjölbreytni leiði til þess að fjölskyldur njóti þess betur að koma á svæðið, hvort sem það sé þá til að fá sér kökur eða ís eða jafnvel eitthvað annað.

Aðeins kökur verða á boðstólnum, ekkert annað brauðmeti.
Aðeins kökur verða á boðstólnum, ekkert annað brauðmeti. Eggert Jóhannesson
Bollakökur, Hnallþórur og venjulegar eins hæða kökur verða meðal þess …
Bollakökur, Hnallþórur og venjulegar eins hæða kökur verða meðal þess sem verður á boðstólnum hjá Sautján sortum. Eggert Jóhannesson
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK