Það vakti athygli þegar 1.300 manns boðuðu komu sína á fund Ungra fjárfesta undir yfirskriftinni „Hvernig byrja ég að fjárfesta?“. Sökum mikillar eftirspurnar hefur verið ákveðið að endurtaka fundinn og fer hann nú fram í sal 1 í Háskólabíó. Tæplega eitt þúsund manns hafa þegar boðað komu sína á hann.
Á fundinum er fjallað um það hvernig eigi að byrja að fjárfesta, hvert eigi að snúa sér, hversu mikinn pening þurfi til ásamt öðrum grunnatriðum.
Fyrri fundurinn var haldinn í kennslustofu Háskólans í Reykjavík sem tekur um 130 manns í sæti. Samkvæmt talningu félagsins voru hins vegar tæplega þrjú hundruð manns í salnum. „Það voru margir sem komu og fóru vegna þess að þeir komust einfaldlega ekki inn,“ segir Alexander Jensen Hjálmarsson, formaður Ungra fjárfesta, í samtali við mbl.is.
Í kjölfar mikillar eftirspurnar eftir fundinn var salur 1 í Háskólabíó því bókaður en hann tekur um 300 manns í sæti.
Önnur ástæða þess að fundurinn verður endurtekinn er sú að upptaka af fundinum sem setja átti á netið eyðilagðist og var því talið kjörið að endurtaka leikinn með vonandi betri árangri.
Aðspurður um mögulegar skýringar á þessum gríðarlegu vinsældum segir Alexander að skólar bjóði almennt ekki upp á kennslu um praktísku atriðin í fjárfestinum heldur séu fræðin almennt í fyrirrúmi. „Fólk hefur áhuga á þessum málum og það er enginn sem hefur beint verið að sinna ungu fólki,“ segir Alexander.
„Ef við hefðum farið af stað með þetta fyrir nokkrum árum hefði eflaust ekki verið jafn mikill áhugi,“ segir hann aðspurður hvort aðsóknin sé til marks um uppgangstíma í efnahagslífinu. „Sem betur fer er fólk kannski hætt að horfa í baksýnisspegilinn og farið að horfa fram á við í staðinn,“ segir hann og leggur áherslu á að félagið sjái um fræðslu er snýr að öllum þáttum fjárfestinga, líkt og sparnað og fleiri atriði.
Fundurinn verður miðvikudaginn 9. september klukkan tólf á hádegi.