Gríðarlegur hagvöxtur á fyrri hluta ársins

Gríðarlegur hagvöxtur mælist á Íslandi en hann nam 5,2% á …
Gríðarlegur hagvöxtur mælist á Íslandi en hann nam 5,2% á fyrri hluta ársins. Sigurður Bogi Sævarsson

Landsframleiðslan á fyrstu sex mánuðum ársins 2015 jókst um 5,2% að raungildi borið saman við fyrstu sex mánuði ársins 2014. Á sama tíma jukust þjóðarútgjöld, sem eru samtala neyslu og fjárfestingar, um 7,3%.

Samkvæmt frétt Hagstofu Íslands jókst einkaneysla um 4,4%, samneysla um 1,0% og fjárfesting um 21,2%. Útflutningur jókst um 9% og innflutningur nokkru meira, eða um 13,6%.

Landsframleiðslan á 2. ársfjórðungi 2015, án árstíðaleiðréttingar, jókst um 5,6% frá sama ársfjórðungi fyrra árs en árstíðaleiðrétt landsframleiðsla jókst um 3,3% frá 1. ársfjórðungi 2015.

Tölur sem þessar hafa ekki sést hér á landi síðan fyrir hrun eða frá árinu 2007. OECD spá­ir því að á þessu ári verði hag­vöxt­ur á Íslandi 4,3% og á því næsta 2,7%. Báðar töl­urn­ar eru tals­vert yfir meðaltali OECD land­anna.

Þannig eru hag­vaxt­ar­horf­ur í ár tvö­falt hærri en meðaltalið í OECD lönd­un­um og á næsta ári spá­ir stofn­un­in 3,7% hag­vexti á meðan meðaltal hinna ríkj­anna er 2,5%. 

Í grein sem er birt á vef Seðlabanka Íslands er fjallað um hagsveiflur á Íslandi en þar kemur fram að hagvöxtur á Íslandi hafi ávallt verið nokkuð sveiflukenndur. Á tímabilinu 1946-2010 mældist hagvöxtur að meðaltali 3,8% en staðalfrávik hans var 4,5%. Á þessu tímabili mældust alls um 6-7 stórar upp- og niðursveiflur.

Helstu drifkraftar mikilla sveiflna hafa jafnan verið sveiflur í viðskiptakjörum, breytilegur sjávarafli, breyting á atvinnuháttum auk hraðrar framþróunar innlends fjármálamarkaðar.  Stærstu uppsveiflurnar áttu sér stað þegar saman fóru betri viðskiptakjör og meiri útflutningsframleiðsla.

Fram að fjármálakreppunni sem náði hámarki haustið 2008 hafa dýpstu niðursveiflurnar hér á landi orðið samfara aflabresti og verðlækkun á sjávarafurðum.

Á sjöunda áratugnum var fjárfest mikið í orkufrekum iðnaði og frá þeim tíma tóku sveiflur í afkomu í áliðnaði einnig að skipta töluverðu máli. Hraður vöxtur innlends fjármálakerfis og að lokum fall þess árið 2008 léku síðan stórt hlutverk í hagsveiflu fyrsta áratugar þessarar aldar. Þessu til viðbótar má síðan ætla að innlendir eftirspurnarog hagstjórnarskellir hafi skipt töluverðu máli á öllu tímabilinu.

Þegar kom fram á miðjan tíunda áratug síðustu aldar hafði hagvöxtur tekið við sér á ný. Hann byggðist á töluvert sterkari stoðum en áður, sem stuðlaði að því að hagsveiflur og verðbólga urðu minni og stöðugri. Þó fór að gæta aukins ójafnvægis á ný þegar líða tók á áratuginn, sem kom fram í verulegum launahækkunum árið 1998.

Framkvæmd peningastefnu með gengismarkmiði varð erfiðari eftir að fjármagnsflutningar urðu óheftir um miðjan tíunda áratuginn og að lokum þurftu stjórnvöld að gefa hana upp á bátinn. Ákveðið var að láta gengi krónunnar fljóta, en byggja peningastefnuna þess í stað á formlegu verðbólgumarkmiði.

Á fyrri hluta fyrsta áratugar þessarar aldar tókst að ná tökum á verðbólgunni á ný eftir mikla gengislækkun árið 2001 og hafði myndast ágætt jafnvægi í þjóðarbúskapnum árið 2003.

Hagvöxtur tók við sér eftir að hrina fjárfestingar í orkuverum hófst árið 2003. Kerfisbreyting á innlendum húsnæðislánamarkaði og greiður aðgangur að ódýru erlendu lánsfé ýtti enn frekar undir eftirspurn á sama tíma og skattar voru lækkaðir verulega.

Þegar kom fram á árið 2008 hafði því byggst upp verulegt ójafnvægi í þjóðarbúskapnum, sem gerði hann sérstaklega berskjaldaðan þegar alþjóðlega fjármálakreppan skall á. Áfallið í lok áratugarins veldur því að hagvöxtur mælist að meðaltali minni á öllum áratugnum en á síðasta áratug síðustu aldar og staðalfrávik hans meira. Svipaða sögu má segja um þróun verðbólgunnar.

Í samanburði við önnur iðnríki er hagvöxtur á Íslandi töluvert sveiflukenndur. Þannig er staðalfrávik hagvaxtar á Íslandi 3,9% á tímabilinu 1994-2010 en um 2% í Bandaríkjunum, Bretlandi, Þýskalandi og á evrusvæðinu. Staðalfrávik hagvaxtar er svipað hér á landi og í Slóvakíu og Finnlandi en þó minna en á Írlandi en þar mælist staðalfrávikið rúmlega 5% á þessu tímabili.

Hagvöxtur á Íslandi
Hagvöxtur á Íslandi
mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK