Uppsveiflan rétt að byrja

Hagvöxturinn er ekki drifinn áfram af skuldsetningu heimilanna. Ólíkt því …
Hagvöxturinn er ekki drifinn áfram af skuldsetningu heimilanna. Ólíkt því sem verið hefur í síðustu uppsveiflum. mbl.is/Ernir

Íslenska hagkerfið virðist á nokkrum tímamótum eftir fjögurra ára hóflegan vöxt þar sem mjög kraftmikil uppsveifla virðist vera í burðarliðnum. Það er ef einhverjir atburðir skjóta ekki upp kollinum líkt og bakslag komi í ferðaþjónustu, eldfjall gjósi eða vandræðin í Kína breiðist út og valdi heimskreppu. Þetta segir Ásgeir Jónsson, hagfræðingur. Nýjar hagtölur voru birtar í morgun en þær jafnast á við skínandi góðar tölur frá árinu 2007.

Í frétt Hagstofunnar í morgun kom fram að á fyrstu sex mánuðum árs­ins 2015 jókst landsframleiðsla um 5,2% að raun­gildi borið sam­an við fyrstu sex mánuði árs­ins 2014. Á sama tíma juk­ust þjóðarút­gjöld, sem eru sam­tala neyslu og fjár­fest­ing­ar, um 7,3%.

„Sumir myndu segja að þetta væri jákvæður hagvöxtur,“ segir Ásgeir og vísar til þess að vöxturinn sé leiddur af útflutningi og fjárfestingu. Hann bendir á gífurlega aukningu á atvinnuvegafjárfestingu auk þess sem þjónustuútflutningur, sem rekja má til ferðaþjónustu, hafi tekið kipp á öðrum ársfjórðungi.

Hliðaráhrif túrismans koma sterk inn

Aðspurður um ástæður fyrir auknum fjárfestingum segir Ásgeir að fyrirtæki ákveði almennt ekki að auka framleiðslugetuna fyrr en uppsveiflan hafi staðið í einhvern tíma. Hann bendir á að hrunið hafi lækkað eignaverð í landinu og að mörg fyrirtæki hafi verið í skuldavandræðum. „Þegar fyrirtæki eiga ekki eigið fé vilja þau ekki fjárfesta,“ segir hann og bætir við að á sama tíma hafi verið samdráttur í hagkerfinu og mikil umframframleiðslugeta til staðar.

Nú eftir fjögurra ára hagvöxt eru mörg fyrirtæki kominn á þann stað að vilja færa út kvíarnar, fjölga fólki og auka framleiðslugetuna.

„Það varð veruleg jákvæð breyting á væntingum stjórnenda vorið 2014 og ávöxtur þessarar bjartsýni er nú að koma í ljós með auknum fjárfestingum á þessu ári,“ segir Ásgeir og nefnir einnig að það megi mögulega rekja til hliðaráhrifa ferðaþjónustunnar sem hafi skapað verulega aukna eftirspurn eftir innlendri vöru og þjónustu mjög víða í hagkerfinu.

Þetta sést til dæmis vel í matvælaiðnaðinum. „Lengi vorum við að vinna í því að flytja landbúnaðarafurðir til útlanda. Núna flytjum við bara útlendinga til landsins til þess að njóta matsins hér,“ segir hann glettinn. Ásgeir bendir þó á ferðaþjónustan sé mannaflafrek og sami vaxtarhraði hljóti að kalla á erlent vinnuafl. „Vinnuaflsskortur er nú þegar farinn að gera vart við sig og hraður hagvöxtur er aðeins mögulegur með aðfluttu vinnuafli,“ segir hann og vísar til áranna 2006 til 2007 þegar töluvert mikið af erlendu vinnuafli streymdi til landsins.

Skuldsetning ekki drifkrafturinn

Núverandi uppsveifla er frábrugðin nánast öllum uppsveiflum frá árinu 1980 að sögn Ásgeirs þar sem yfirleitt hafi einkaneysla studd með verulegri skuldsetningu orðið yfirgnæfandi í hagvextinum. Þess hafi ekki sést staður ennþá að neinu marki. Mörg heimili eru verulega skuldsett og lítið svigrúm fyrir frekari lántökur.

„Það er takmarkað svigrúm hjá minni kynslóð sem er yfirskuldsett,“ segir hann. „Gírunin mun koma frá unga fólkinu,“ segir Ásgeir og vísar til þess að helmingur þjóðarinnar sé undir 34 ára aldri – og fjöldi ungs fólks sé nú að stíga sín fyrstu skref á vinnumarkaði. Þetta unga fólk býr gjarnan í leiguhúsnæði, skuldar lítið og hugar að húsnæðiskaupum en hefur mjög takmarkaðan aðgang að lánsfjármagni. „Ég spái því að neysla þessa unga fólks verður ráðandi fyrir vöxt einkaneyslu á næstu árum“ segir hann.

Fasteignaverð enn lægra en byggingarkostnaður

Eftir hrun hefur verið gríðarlegt aðhald á útlánum og hafa þeir sem hyggja á lántöku hafa þurft að fara í gegnum strangt greiðslumat sem að mati Ásgeirs hefur haldið aftur að hækkun fasteignaverðs þrátt fyrir vaxandi skort á húsnæði sem hefur því frekar komið fram með hækkunum á leigu.

Þetta hefur bæði kosti og galla.

„Ljóst er að margir tóku of mikla fjárhagslega áhættu við kaup á húsnæði hér á árum áður og of greiður aðgangur að lánsfé spennti upp fasteignaverðið. Hins vegar, er ákaflega auðvelt að skilja gremju ungs fólks sem nær ekki að eignast þak yfir höfuðið,“ segir Ásgeir og bætir við að þrátt fyrir allt sé  þó fasteignaverð almennt séð vart hærra en byggingarkostnaður – nema hvað varðar lítið fjölbýli í miðbænum.

„Verð á einbýli, raðhúsum og smærra fjölbýli er enn lægra en nemur byggingarkostnaði. Staðan er þannig nú að byggingariðnaður hefur misst úr 5 til 6 ár í uppbyggingu íbúða eftir hrun og því eru tiltölulega fáar nýjar íbúðir að koma á markaðinn nú þrátt fyrir gríðarmikla eftirspurn. Húsnæðisskorturinn á því miður eftir að versna áður en hann batnar og byggingariðnaðurinn hefur náð að vinna upp þessi glötuðu ár.“

Þensla frá sjónarhóli Seðlabankans

„Til þess að taka þetta saman má segja að þetta sé meiri hagvöxtur á fyrsta helmingi þessa árs en menn bjuggust við og hann sýnir mikinn kraft í hagkerfinu. Það er jákvætt að vöxturinn sé drifinn áfram af fjárfestingu og útflutningi en hins vegar, frá sjónarhóli Seðlabankans sem þarf að viðhalda verðstöðugleika, sýna tölurnar aukna þenslu og spennu í hagkerfinu“ segir Ásgeir að lokum.

Ásgeir Jónsson, dósent í hagfræði við Háskóla Íslands.
Ásgeir Jónsson, dósent í hagfræði við Háskóla Íslands. mbl.is/Ómar
Hliðaráhrif túrismans eru margþætt.
Hliðaráhrif túrismans eru margþætt. mbl.is/Þórður Arnar Þórðarson
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK