Isavia hagnast um 540 milljónir

Björn Óli Hauksson, forstjóri Isavia.
Björn Óli Hauksson, forstjóri Isavia. Oli Haukur

Rekstrarafkoma Isavia fyrir fjármagnsliði og skatta á fyrri helmingi ársins 2015 var jákvæð um 1.247 milljónir króna og jókst um ríflega 20% á milli ára. Rekstrartekjur námu 11.454 milljónum króna sem er 1.526 milljóna króna aukning samanborið við sama tímabil á síðasta ári eða ríflega 13%. Heildarafkoma tímabilsins var jákvæð um 540 milljónir króna samanborið við 836 milljónir króna á sama tímabili á síðasta ári. Í tilkynningu segir að þessa lækkun megi að fullu rekja til gengisáhrifa af erlendum fjáreignum og skuldum.

„Isavia samstæðan samanstendur af rekstri Keflavíkurflugvallar, Fríhafnarinnar, innanlandsflugvallakerfis og starfsemi í flugleiðsöguþjónustu. Rekstrarafkoma allra þessara þátta var betri en áætlanir félagsins gerðu ráð fyrir og má rekja þann árangur m.a. til aukinnar flugumferðar og fjölgunar farþega sem fara um flugvelli landsins,“ segir Björn Óli Hauksson forstjóri Isavia.

Flugumferð um íslenska flugstjórnarsvæðið jókst fyrstu sex mánuði ársins um 11% og flugumferð til og frá Íslandi jókst um 12%. Þá tók Isavia nýverið að sér stjórn flugumferðar á flugvellinum í Kangerlussuaq (Syðri-Straumfirði). Kangerlussuaq er eini flugvöllurinn á Grænlandi sem er með flugumferðarstjórn og fer mikill meirihluti millilandsflugs um flugvöllinn.

Á fyrstu sex mánuðum ársins fóru ríflega tvær milljónir farþega um Keflavíkurflugvöll sem er um 25% aukning frá sama tímabili í fyrra. Þetta er sami fjöldi og fór um flugvöllinn allt árið 2010 þegar Isavia var stofnað. Gert er ráð fyrir því að fjöldi farþega árið 2015 verði um 4,8 milljónir talsins og áætlanir félagsins gera ráð fyrir áframhaldandi vexti á næsta ári.

Brottfararsalurinn í Flugstöð Leifs Eiríkssonar í Keflavík.
Brottfararsalurinn í Flugstöð Leifs Eiríkssonar í Keflavík. Sigurgeir Sigurðsson
mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK