Afkoma félagsins Djús ehf., sem heldur utan um rekstur Lemon samlokustaðanna, batnaði milli ára. Hagnaður félagsins nam tæpum 2,9 milljónum króna á síðasta ári samanborið við tæplega 3,8 milljóna tap árið 2013.
Þetta kemur fram í ársreikningi félagsins. Fyrsti Lemon staðurinn var opnaður á Suðurlandsbraut í mars 2013. Í dag eru staðirnir þrír: Á Suðurlandsbraut, Laugavegi og í Hjallahrauni í Hafnafirði. Þá verður sérleyfisstaður opnaður í Keflavík í september auk þess sem fyrirtækið stefnir á útrás til Parísar og London.
Í ársreikningnum er ekki að finna tekjur félagsins á síðasta ári þar sem fyrirtæki að þessari stærð þurfa ekki að geta þeirra. Hins vegar kemur fram að hagnaður félagsins fyrir afskriftir og fjármagnsliði nam 14,7 milljónum króna samanborið við 16 milljónir árið 2013. Afskriftir námu 6,7 milljónum króna.
Eignir félagsins námu tæplega 88,4 milljónum króna en skuldir 83,8 milljónum króna. Nam eigið fé því tæpum 4,6 milljónum króna í árslok.
Handbært fé í árslok nam 2,4 milljónum króna.
Á árinu störfuðu að meðaltali 14 starfsmenn við fyrirtækið og námu launagreiðslur samtals 64,8 milljónum króna. Engin þóknun var greidd til stjórnar félagsins ´aárinu.
Hluthafar félagsins eru fjórir: Jón Arnar Guðbrandsson á 45 prósent hlut, Jóhannes Jóhannsson á 35 prósent hlut, Jón Gunnar Geirdal á 13 prósent hlut og félagið Ysland á sjö prósent hlut, en félagið er í eigu Jóns Gunnars Geirdal.