Skúli Mogensen, forstjóri WOW, gagnrýnir áform um nýja kísilverksmiðju harðlega en segir málið þó ekki einungis snúast um Hvalfjörðinn heldur stóriðjustefnu Íslands í heild sinni. „Ef við pössum okkur ekki gæti ímynd Íslands orðið samsömuð slíkri vitleysu,“ segir hann.
Líkt og mbl greindi frá í gær hefur Silicor Materials lokið fyrsta stigi hlutafjársöfnunar fyrir sólarkísilverksmiðju í Hvalfirðinum. Fjórtán milljarðar eru í höfn en íslenskir lífeyrissjóðir eru meðal fjárfesta.
„Við erum núna í einstakri aðstöðu á Íslandi,“ segir Skúli. „Viðsnúningurinn í efnahagslífinu hefur verið með ólíkindum. Hann hefur átt sér stað á undanförnum árum eftir hrun án þess að ein einasta nýja virkjun hafi verið byggð. Án einnar einustu stóriðjuframkvæmdar. Núna erum við að horfa fram á eitt mesta hagvaxtarskeið í sögu þjóðarinnar og atvinnuleysi er í sögulegu lágmarki. Það er tekjuafgangur hjá ríkissjóði og við erum á góðri leið með að verða fyrirmyndarland að mörgu leyti,“ segir Skúli.
„Í því samhengi finnst mér sorglegt að ríkið sé ennþá að niðurgreiða orku, fella niður tryggingargjald og með alls konar ívilnanir til þess að laða að sér stóriðju. Þvert á það sem ég tel vera augljósan langtímahag landsins.“
Skúli segir tækifærin frekar felast í því að byggja á náttúrunni og byggja upp hreina ímynd. Það væri jákvætt fyrir sjávarútveginn, jákvætt fyrir nýsköpun, vatnið okkar og útflutning. „Við höfum frábært tækifæri til þess að byggja á menningu okkar, sögu og þessum augljósu auðævum,“ segir hann og bætir við að alls staðar sé rætt um hreint loft, hreint vatn og mikið landssvæði sem auðlindir 21. aldarinnar.
„Þetta er það sem löndin sem áttu alla olíuna og þessi sögulegu verðmæti eru að öfundast útí,“ segir hann.
Skúli á sjálfur jörð í Hvalfirði og hefur ætlað sér að byggja þar vistvænt hótel. Aðspurður um áformin nú þegar hluti fjármögnunar er í höfn og bygging verksmiðjunnar virðist raunverulegur möguleiki segir hann það gefa augaleið að enginn muni hafa áhuga á að gista í Hvalfirðinum ef honum verður breytt í „einhverja ruslakistu.“
„Ég trúi að það sé ennþá hægt að snúa við blaðinu,“ segir Skúli.