Eigandi verslunarinnar Nordic Store, sem flytur árlega út þúsundir pakka af íslenskum vörum til Evrópu og Bandaríkjanna hefur fengið tugi tölvupósta þar sem fólk ýmist hættir við kaup á vörum eða lýsir yfir sniðgöngu á íslenskum vörum sökum samþykktar borgarstjórnar Reykjavíkur um að undirbúa sniðgöngu á ísraelskum vörum.
Bjarni Jónsson, eigandi verslunarinnar, telur sig þegar hafa orðið var við samdrátt á pöntunum þrátt fyrir að stuttur tími sé liðinn frá því að ákvörðunin var tekinn. Hann segir meirihluta pantana vera frá Bandaríkjunum þar sem stuðningur við ísraelsk stjórnvöld sé almennt mikill.
Líkt og fram hefur komið samþykkti borgarstjórn Reykjavíkur í vikunni tillögu Bjarkar Vilhelmsdóttur um að fela skrifstofu borgarstjóra í samvinnu við innkaupadeild að undirbúa og útfæra sniðgöngu Reykjavíkurborgar á ísraelskum vörum meðan hernám Ísraelsríkis á landsvæði Palestínumanna varir. Tillagan var samþykkt með atkvæðum Samfylkingarinnar, Bjartrar framtíðar, Pírata og Vinstri grænna.
Bjarna segist nokkuð brugðið vegna tölvupóstanna en í einum þeirra sem Bjarni áframsendi á mbl.is segir Bandaríkjamaður að hvorki hann né nokkur annar sem hann þekki ætli framar að kaupa íslenskar vörur. Hann segist ætla að slást í hóp vaxandi grasrótarhreyfingar sem hyggst sniðganga allar íslenskar vörur og þjónustu. Hann gerir athugasemd við að borgarstjórn sé að taka ísraelsk stjórnvöld sérstaklega fyrir og segir ákvörðunina illa ígrundaða og lýsa fordómum gagnvart gyðingum.
„Þetta virðast ekki vera fjöldapóstar eða skipulagt þar sem póstarnir eru allir mismunandi orðaðir,“ segir Bjarni.
„Ég hef reynt að svara þessu fólki og sagt að ég, fyrirtækið mitt, starfsmennirnir mínir og eflaust margir aðrir Íslendingar séum líka saklaus fórnarlömb pólitíkusa,“ segir hann. „Ég vonast bara til þess að borgarstjórn dragi þessa ákvörðun til baka.“
Þá tekur hann undir orð Kjartans Magnússonar, borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins, og segir undarlegt að taka Ísrael sérstaklega fyrir þegar Dagur B. Eggertsson, borgarstjóri, hafi ekki látið mannréttindabrot í Kína stöðva sig í að þiggja ferðir þangað í boði kínverskra stjórnvalda.
Viðskiptabannið hefur þegar hlotið mikla athygli í erlendum fjölmiðlum en í grein sem birtist í gær á fréttavefnum Jewish Press segir m.a. að litli og indæli bærinn Reykjavík, sem telur aðeins 120 þúsund manns, sé að hunsa og brjóta alþjóðlegan sáttmála. Er í framhaldinu fullyrt að innkaupabannið brjóti á sáttmála Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar sem lýtur að innkaupum ríkisstjórna.
Sáttmálinn tók gildi í apríl á síðasta ári en Ísland og Ísrael voru á meðal fyrstu tíu ríkjanna til að ljá honum undirskrift sína. Fyrsta meginregla hans felst í því að ekki megi mismuna aðilum á sviði viðskipta.