Bankaráð Seðlabanka Íslands mun taka bréf Samherja fyrir á fundi á næstunni. Ekki er víst hvort því verði komið fyrir í dagskránni í næstu viku eða hvort farið verði yfir það á fundi eftir tvær vikur. Þetta segir Jón Helgi Egilsson, varaformaður bankaráðs Seðlabanka Íslands, en líkt og fram hefur komið hefur formaður bankaráðs, Þórunn Guðmundsdóttir, lýst sig vanhæfa til þess að fjalla um málið.
Samherji er viðskiptavinur lögmannstofu hennar, Lex, og mun hún því ekki tjá sig um málið.
Líkt og greint var frá í gær hefur stjórn Samherja hf. óskað eftir því að bankaráð hlutist til um að „fram fari athugun á stjórnsýslu bankans, bankastjórnar og annarra starfsmanna, að því er snertir gjaldeyriseftirlit, einkum og sér í lagi í tengslum við húsleit, rannsókn, samskipti, kærur og fjölmiðlaumfjöllun af hálfu Seðlabanka Íslands um málefni Samherja“.
„Ég á von á því að menn skoði þetta ítarlega af því þetta eru alvarlegar ásakanir,“ segir Jón Helgi en bætir við að ekki sé tímabært að tjá sig um það hvernig athugun sem þessi myndi fara fram. Hann bendir á að frumvarp um breytingu á lögum um Seðlabanka Ísland liggi þegar fyrir Alþingi. „Það tekur á ýmsum þáttum í rekstri bankans,“ segir hann.
„Það verður að skoða þetta í heildarsamhenginu. Ef niðurstaðan verður sú að eitthvað hafi farið úrskeiðis í þessu máli þarf að tryggja að það gerist ekki aftur. En ég get ekkert sagt til um það. Við eigum eftir að fá útskýringar frá seðlabankastjóra og gjaldeyriseftirlitinu um þær ásakanir sem þarna koma fram,“ segir hann.
Aðspurður hvort bankaráð muni greiða atkvæði um hvort hefja eigi athugun á málinu segir Jón Helgi að vinnuferlið sé misjafnt. „Ef það eru umdeild mál hefur komið til þess að menn greiði atkvæði en við sjáum bara til.“