Beiðni Costco um breytingar á lóðinni undir væntanlega verslun keðjunnar í Kauptúni verður tekin fyrir á fundi skipulagsnefndar Garðabæjar á næstunni, en þegar samþykki er í höfn ætti fljótlega að vera hægt að hefja framkvæmdir. Í bréfi Costco til bæjarráðs er greint frá áformum Costco um að koma fyrir sextán eldsneytisdælum við verslunina.
Costco selur Kirkland Signature™ Gasoline á um 400 bensínstöðvum víðsvegar um Bandaríkin og er það yfirlýst stefna Costco að bjóða eldsneyti á lægra verði en það eldsneyti sem keppinautarnir selja.
Gunnar Einarsson, bæjarstjóri Garðabæjar, hefur áður sagt í samtali við mbl að framkvæmdirnar gætu tekið um eitt ár.
Í bréfi Costco er óskað eftir leyfi til þess að fækka bílastæðum frá því sem gert er ráð fyrir í deiliskipulagi og eiga þau alls að vera 791 talsins.
Gert er ráð fyrir að aðalinngangur verslunarinnar verði í viðbyggingu, sem eftir á að byggja, vestan megin við húsið. Við aðalinngang verður þá einnig dekkjasala og dekkjaverkstæði.
Í bréfinu segir að á versluninni verði torfþak, þar sem því verður við komið.
Líkt og áður hefur komið fram er gert ráð fyrir að í upphafi verði ráðnir 160 starfsmenn en þeim verður líklega fjölgað upp í 250 eftir þrjú ár þegar starfsemin hefur þróast.
Aðeins þeir geta verslað í Costco sem hafa greitt ársgjald, sem veitir þeim réttindi til að versla í búðinni. Ekki hefur verið ákveðið hvað einstaklingsaðild að Costco muni kosta hérlendis, en í Bandaríkjunum kostar slík aðild 55 dollara, eða tæpar 7.500 krónur. Úrvalsaðild, sem ber ýmsa kosti með sér, kostar 110 dollara, eða tæplega 15.000 krónur.