Krónan verður líklega aldrei aftur haftalaus þrátt fyrir að það létti á fjármagnshöftum á þessu kjörtímabili.
Þetta kom fram í máli Ásgeirs Jónssonar, hagfræðings, á fjármálaráðstefnu sveitarfélaga í morgun. Í frétt á vefsíðu Sambands íslenskra sveitafélaga segir að Ásgeir hafi náð óskiptri athygli fundarmanna í sal er hann talaði hátt og skýrt um íslenskt efnahagslíf.
Ásgeir sagði allt benda til verulegs hita í hagkerfinu á næstu sex til tólf mánuðum, þegar innlend eftirspurn tekur á rás, og bætti við að þensla væri framundan.
Því til stuðnings nefndi hann að mörg fjárfestingarverkefni séu í pípunum og byggingariðnaðurinn á fullu skriði. Þá hljóti nýgerðir kjarasamningar og áframhaldandi launakröfur að leiða til verðbólgu – spurningin sé aðeins hvenær. Að auki sé samkeppnishæfni, sem gengisfall krónunnar skapaði árið 2008, óðum að tapast vegna hækkunar launa án þess að framleiðni aukist.
„Uppsveiflan verður án efa ein sú lengsta í Íslandssögunni en óveðursskýin hrannast upp. Allar uppsveiflur frá seinna stríði hafa endað með gengisfalli og verðbólguskoti. Svo mun líka fara um uppsveifluna nú.“
Ásgeir sagði litla framleiðni vera helsta dragbítinn þar sem okkur hefur miðað aftur á bak en ekki fram á veg á síðustu árum. Þar megi fjármagnshöftum líklega helst kenna um.
Hann vék einnig að stöðuleikaskattinum sem gæti fært ríkinu 500 milljarða króna í fjármálaeignum. Ásgeir sagði slíka búbót gefa færi á endurskipulagningu fjármálakerfisins og nýrri nálgun í peningamálastjórn í stað þess að hækka vexti.
„Á hinn bóginn er hægt að nota alla þessa milljarða til að ýta efnahagslífinu út í nýja kollsteypu, ef þeir verða fóður fyrir popúlisma og kosningaloforð,“ sagði Ásgeir og bætti við að það vantaði hugmyndavinnu og leiðakort.
„Aðalvandann við að afnema höftin er að finna í kollum Íslendinga sjálfra,“ sagði Ásgeir og vísaði m.a. til þess að landsmenn virðast ekki tengja góð lífskjör og stöðugleika við framleiðni og skynsama hagstjórn. Það geri þeim erfitt að lifa við opinn, alþjóðlegan fjármagnsmarkað.
Hann sagði þjóðfélagsleg þanþol fyrir gengissveiflum virðast horfið og benti á að enginn virðist í raun vilja sjá frjálst flot á ný, líkt og þekktist á árunum 2001-2008.
„Stöðug króna verður aðeins tryggð með áframhaldandi höftum. Höftin gæða krónuna öryggi stórgjaldmiðils þannig að venjulegt fólk geti sinn sínum málum án þess að vera ofurselt gengisáhættu.“
Þá sagði Ásgeir að Íslendingar þyrftu að horfast í augu við það að með lítinn frjálsan gjaldmiðil sé ekki hægt að lofa stöðugleika, svo sem með öruggum kaupmætti, lágri verðbólgu og stöðugri greiðslubyrði.
„Helsta hættan nú er sú að nýtt Ísland byggist upp á fölskum stöðugleika og öryggi sem fjármagnshöftin skapa. Þegar til kastanna kemur vilja Íslendingar því ekki stíga upp úr hægindastólnum,“ sagði Ásgeir.
„Munum við sjá ný mótmæli á Austurvelli og nýja umræðu um „forsendubrest“ þegar við þurfum næst að lækka gengi krónunnar – sem gæti verið bráðlega miðað við stefnu vinnumarkaðarins?“ spurði Ásgeir að lokum.