Eiginfjárstaða barnafjölskyldna batnaði mjög á síðasta ári og fjölskyldum með neikvætt eigið fé í fasteignum fækkar mjög. Þetta er meðal þess sem kemur fram í nýjum tölum frá Hagstofu Íslands.
Eiginfjárstaða allra fjölskyldugerða batnaði mikið á síðasta ári eða samtals um 14,4%, úr 2.194 milljörðum kr. í 2.510 milljarða kr. Miðað við eiginfjárstöðu í fasteign nam batinn 13,7% og miðað við annað eigið fé nam aukningin 17,2%.
Eiginfjárstaða fólks á aldrinum 25-44 ára batnar mjög
Mesta aukningin er hjá barnafjölskyldum. Heildareiginfjárstaða einstæðra foreldra batnaði um tæp 97% árið 2014 og hjóna með börn um rúm 22%. Eiginfjárstaða einstaklinga batnaði um tæp 15% og hjóna án barna um 10,5%. Eiginfjárstaða milli ára batnar mest í aldurshópunum 25-44 ára eða á bilinu 36 - 253% sem einkum má rekja til bættrar eiginfjárstöðu í fasteign.
Fjölskyldum með neikvætt eigið fé í húsnæði fækkar töluvert. Árið 2014 voru 11.644 fjölskyldur með neikvæða eiginfjárstöðu í fasteign eða rúmlega 27% færri en árið 2013 og nam neikvæð eiginfjárstaða þeirra í fasteign að meðaltali 4,4 m.kr.
Eignir einstaklinga jukust um 7,1% milli ára eða úr 4.121 milljarði kr. í 4.412 milljarða kr. Verðmæti í fasteignum hækkaði um 8,3% frá árinu 2013 sem rekja má að hluta til hækkunar fasteignamats milli ára.
Heildarskuldir námu 1.902 milljörðum kr. í árslok 2014 og minnkuðu um 1,3% frá fyrra ári einkum vegna skuldalækkunar einstæðra foreldra og hjóna með börn. Skuldir einstæðra foreldra drógust saman um 3,2% og hjóna með börn um 2,9% en jukust hins vegar hjá hjónum án barna um 0,5% og 0,1% hjá einstaklingum.
Íbúðalán námu 1.251 milljörðum kr. og jukust um 0,7% milli ára. Aukning íbúðalána var einkum í eldri aldurshópunum, eða um 8,5% hjá 67 ára og eldri og á bilinu 1,5% - 5,2% hjá 50-66 ára.