Gífurleg fjölgun ferðamanna á síðustu árum hefur líklega farið fram hjá fáum. Fyrirtækjum í ferðaþjónustu og svokölluðum „lundabúðarekstri“ hefur fjölgað langt umfram önnur, hótelin rísa upp hvert á fætur öðru og ekkert lát virðist á. En hvaða áskorunum stendur greinin frammi fyrir og hvaða flöskuhálsar gætu verið á vextinum?
Fjallað var um horfur í ferðaþjónustunni á morgunfundi Greiningardeildar Arion banka í morgun. Fundurinn er árlegur viðburður og þegar litið var til spár Greiningardeildarinnar frá síðasta ári mátti sjá að ferðamönnum hefur fjölgað langt umfram það sem gert var ráð fyrir. Ný spá gerir ráð fyrir að ferðamönnum muni fjölga um 27,5% á árinu og reiknað er með að þeir verði tvær milljónir árið 2018.
Konráð S. Guðjónsson, hagfræðingur í Greiningardeild Arion, benti á að þrátt fyrir mikla umræðu um fjölgun óskráðrar og ólöglegrar gistingar hefði vægi hennar ekki aukist sérstaklega þar sem gistinóttum hefur fjölgað auk þess sem dvalartími ferðamanna hefur haldist frekar stöðugur.
Nefnd voru nokkur atriði sem koma til með að skipta ferðaþjónustuna miklu máli á næstu árum, þ.e. gengi krónunnar, dreifing ferðamanna yfir landsvæði og árstíma og líklegur skortur á vinnuafli.
Farið var yfir meðaleyðslu ferðamanna eftir þjóðernum, en líkt og fram hefur komið eyða Svisslendingar mest og Pólverjar minnst, samkvæmt tölfræði um kortanotkun. Konráð benti hins vegar á að Pólverjar búsettir á Íslandi væru inní þessum tölum og því gæti vel verið að pólskir ferðamenn væru að meðaltali að eyða mun meira.
Samhliða fjölgun ferðamanna eru vísbendingar um að neysla þeirra hafi dregist saman. Konráð benti á að þetta gæti átt sér eðlilegar skýringar, s.s. lækkun á flugverði auk þess sem hlutur erlendra flugfélaga á Keflavíkurflugvelli hefur aukist. En hins vegar hefur verðlag einnig hækkað á Íslandi auk þess sem gengi krónunnar hefur styrkst. Neyslan hefur fylgt genginu og Konráð vísaði til þess að það væri mjög eðlilegt. Því sagði hann styrkingarþrýsting á krónuna auk verðhækkana í kjölfar kjarasamninga vera áhyggjuefni þegar litið væri til neyslunnar.
„Það gæti orðið áskorun fyrir ferðaþjónustuna ef verðlag hækkar. Þetta eru skýr og augljós tengsl,“ sagði hann.
Konráð nefndi að betri dreifing ferðamanna, bæði yfir árstíma og landið, væri mjög mikilvæg ef framleiðni á að aukast. Þrátt fyrir að ferðamönnum sé almennt að fjölga aðeins yfir vetrartímann eru nokkur þjóðerni sem virðast hafa meiri áhuga á Íslandi á veturna og gæti því verið sniðugt að beina markaðssetningu að þeim. Á veturna eru Bretar mjög algengir auk þess sem Japanir sækja hingað. Hins vegar virðist fólk frá meginlandi Evrópu frekar koma á sumrin.
Anna Hrefna Ingimundardóttir, hagfræðingur hjá Greiningardeild Arion, benti á að það væri þegar orðið erfitt að fá menntað starfsfólk í ferðaþjónustuna og miðað við vöxtinn blasa erfiðleikar við.
Hún sagði líklegt að ný störf, bara í ferðaþjónustu, yrðu fleiri en sem nemur fjölda þess fólks sem er að koma út á vinnumarkaðinn á næstu árum. „Það eru því allar líkur á því að flytja þurfi inn vinnuafl á næstu árum.“
Þrátt fyrir mörgum finnist nóg um fjölgun hótela er nýtingin hér á landi gífurlega góð, eða að meðaltali 84%, sem er t.a.m. betra en í stórborgum á borð við London og París. Þá hefur nýtingin slegið upp í 100% og er staðan þannig að varla er hægt að koma fleiri ferðamönnum fyrir á hótelum á höfuðborgarsvæðinu á háannatímum.
Anna Hrefna sagði alveg ljóst að þörf væri á fleiri hótelherbergjum. Miðað við áætlanir mun herbergjum fjölga um 1.700 fram til áranna 2018 til 2019 en það er um 50% aukning. Anna Hrefna vísaði til tölfræði um framboðsaukningu hótelherbergja á landsbyggðinni og benti á að reynslan sýndi að samhliða fjölgun herbergja hefði nýtingin almennt aukist. Helsta áskorunin sneri að því að minnka árstíðarsveifluna til þess að tryggja betri rekstrargrundvöll.