Á sama tíma og margir hafa áhyggjur af stöðunni í kínversku efnahagslífi er eigandi verslunarkeðjunnar Uniqlo pollrólegur. Hann ætlar meira að segja að opna eitt hundrað nýjar búðir í landinu á næsta ári.
Kínversk hlutabréf hafa hríðfallið í verði undanfarið og aðgerðir stjórnvalda, líkt og lækkun stýrivaxta, hafa ekki haft tilætluð áhrif. Fjármagn virðist leita hratt útúr kínverskum mörkuðum.
Í viðtali við CNN segist Tadashi Yanai, eigandi Uniqlo og ríkasti maður Kína, hins vegar hafa engar áhyggjur. Hann segir markaðinn hafa verið framleiðslumiðaðan til þessa en telur hann verða neyslumiðaðan héðan af.
Fjölmörg þekkt vörumerki, s.s. Prada, Gucci, Ford og General Motors hafa nýverið greint frá slakari sölu svæðinu.
Yanai segir hegðun kínverskra neytenda einungis vera að breytast og telur þá orðna hagkvæmari í kaupum. Það komi sér vel fyrir fyrirtæki líkt og Uniqlo sem selja vörur á lágu verði.
Uniqlo rekur þegar 380 verslanir í Kína en líkt og áður segir er ætlunin að opna 100 nýjar búðir á næsta ári.