„Hvert högg til viðbótar sem reitt er líkist því að sparka í liggjandi mann,“ segir í umsögn Ísafjarðarbæjar um fjárlagafrumvarpið. Þar segir að jafnt og þétt sé verið að grafa undan tilverunni á Vestfjörðum.
Í dæmaskyni er bent á lokun sparisjóða, pósthúsa og bankaútibúa, brottflutning starfa s.s. vegna Fiskistofu, sviptingar í rekstri fiskvinnslufyrirtækja, lágt fasteignaverð, stöðuga fólksfækkun, gífurlegan samgöngukostnað, háan orkukostnað, ófullnægjandi samgöngur á Vestfjörðum, erfiðar flugsamgöngur og lokun Þingeyrarvallar að mestu, hópatakmarkanir í framhaldsskóla sem komi í veg fyrir verkmenntun mjög fámennra hópa nemenda og atgervisflótta iðnaðarmanna eftir langvarandi samdrátt t.d. í verkefnum sveitarfélagsins.
Þá er bent á að íbúum í sameinuðu sveitarfélagi Ísafjarðarbæjar hafi fækkað úr tæplega 4.500 í 3.600 frá árinu 1999. Til að bæta gráu ofan á svart þá hafi íbúum á aldrinum 0-40 ára fækkað meira en 1.000 frá sameiningu og þróun aldursdreifingar því verið enn óhagstæðari en íbúafækkunin sjálf. „Sameiningin varð árið 1996 og því liðin nærri 20 ár síðan. Um er að ræða 20% fækkun og eru hér Vestfirðir nánast í sérflokki.“
„Þeir íbúar sem eftir eru í Ísafjarðarbæ bera nú á herðum sér ýmsa þá innviði og mannvirkjum, og jafnvel skuldum, sem fjórðungi fleiri gerðu áður,“ segir í umsögninni.
„Því eru 85 milljónir vegna málefna fatlaðra, 45 milljón króna ógreidd framlög í hafnarframkvæmdir og tjón í febrúar vegna vatnsflóða eins og fleiri naglar í kistuna.“